Laugardagur 22. október 2011

Vefþjóðviljinn 295. tbl. 15. árg.

Konur í kuflum og bann við kynlífi nema að forskrift ríkisins. Kunnugleg stef.
Konur í kuflum og bann við kynlífi nema að forskrift ríkisins. Kunnugleg stef.

Hópur kvenna hefur að undanförnu villt á sér heimildir í þeim tilgangi að lokka menn til að klæmast á netinu og í símtólið. Æðsta markmið kvennanna er að kalla fram yfirlýsingar um að menn gætu hugsað sér að brjóta lög um bann við kaupum á kynlífi. Konurnar kalla sig Stóru systur og fara klæddar kufli um bæinn með heykvíslarnar sínar.

Þessi óhugnaður virðist framhald á hinni svonefndu búsáhaldabyltingu þar sem menn með hulin andlit fóru um með ofbeldi og skemmdarverkum.

Stóra systir kynnti afrakstur af þessari iðju sinni á fundi í Iðnó á þriðjudaginn. Þar var sagt að hópurinn hefði sent lögreglu nöfn manna sem gengu í gildru hópsins og því var hótað að birta nöfnin opinberlega. Einn maðurinn sem þær blekktu var sagður 48 ára deildarstjóri hjá opinberri stofnun og hafa lýst áhuga á 15 ára gamalli stúlku. Gaman að vera slíkur deildarstjóri eftir þessa kynningu Stóru systur. Það vill þó til happs að 48 ára deildarstjórar hjá hinu opinbera eru óteljandi.

Það gerist sem betur fer ekki oft hér á landi að hópur fólks taki sig saman um að niðurlægja og meiða samborgara sína á þennan hátt. Auðvitað er slík framkoma einstakra manna í ójafnvægi daglegt brauð vítt og breitt um samfélagið. En það er orðið svolítið annað þegar tugir einstaklinga rotta sig saman á þennan hátt í þeim tilgangi.

Það er því viðeigandi á tvennan hátt að konurnar hylji andlit sín í búrkum. Það gefur bæði von um að þær skammist sín fyrir tiltækið og svo er þetta hreinskiptin viðurkenning á því að þær eigi góða samleið með versta trúarofstækinu í íslam.