Hafnarfjarðarbær skuldar ótrúlegar fjárhæðir og stór hluti lánanna er gjaldfallinn. Skuldamilljarðarnir eru jafnvel fleiri en titlarnir sem meistaraflokkar íþróttafélaganna í bænum hafa skilað í hús á undanförnum árum. Helsti lánadrottinn bæjarins er Depfa bankinn, írskur banki í slitameðferð. Depfa og aðrir kærulausir lánveitendur Hafnarfjarðar lánuðu bænum margfalt meira en hann getur endurgreitt. Þeim mátti jafnframt vera ljóst að verulegar takmarkanir eru á aðfararhæfi eigna sveitarfélaga og bú þeirra verða ekki tekin til gjaldþrotaskipta. Að lána slíkum félögum stórfé er sérstakt en verðskuldar enga sérstaka samúð. Eins og hér hefur áður verið sagt er sjálfsagt að menn virði samninga. Hins vegar er ekkert óeðlilegt við að lán séu afskrifuð þegar lántaki getur ekki greitt þau til baka og ekki er hægt að ganga að eignum hans. Sá möguleiki er beinlínis verðlagður í vextina sem lánið ber. Þó hvorki lánveitandi né lántaki kjósi að hlutir atvikist með þeim hætti að lántaki geti ekki staðið við sinn enda samningsins gera samningsaðilar sér grein fyrir þeim möguleika í upphafi. Í flestum lánasamningum er meira að segja ítarlegur kafli sem skilgreinir fjölmörg gjaldfellingarákvæði.
En hér er við völd ríkisstjórn sem má hvergi sjá lánveitanda vera við það að tapa á ákvörðun sinni. Þá er komið hlaupandi með þá fjármuni sem stjórnin hefur náð af almennum launþegum með skattahækkunum. Það er ógæfa allra skattgreiðenda á Íslandi. Ógæfa íbúa Hafnarfjarðar er hins vegar tvöföld því þar sitja ríkisstjórnarflokkarnir einnig við völd og virðast staðráðnir í því að klína skuldunum á íbúa bæjarins til næstu áratuga.
Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi í Hafnarfirði skrifar um þessi mál í Morgunblaðið í dag. Þar segir hún að meirihluti bæjarstjórnarinnar stefni að því að endurfjármagna 14 þúsund milljóna króna skuldir á afar óhagstæðum vaxtakjörum. Aðeins sjálf fjárhæðin, sem nálgast að vera 1 milljón króna á hvern kjósanda í bænum, ætti að koma vitinu fyrir menn. Helga telur því einsýnt að rætt verði að nýju við hinn gjaldþrota írska banka um að menn horfist í augu við raunveruleikann.