Á dögunum voru íslenskir ráðamenn staddir í Eistlandi, þar sem þeir fögnuðu því að tuttugu ár væru liðin frá því Jón Baldvin Hannibalsson hefði einn síns liðs – og alls ekki aðrir sem sátu í ríkisstjórn Íslands á sama tíma – frelsað Eystrasaltsríkin undan Sovétríkjunum. Blaðamaður Morgunblaðsins fylgdist með því sem fram fór og heim komin skrifaði Ingveldur Geirsdóttir eftirtektarverða frásögn af framgöngu fulltrúa Íslands:
Staðið var fyrir pallborðsumræðum fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra nokkurra ríkja. Að loknu pallborði núverandi utanríkisráðherra Íslands, Eistlands, Litháens, Svíþjóðar, Danmerkur. Lettlands og Finnlands var haldinn blaðamannafundur. Það verður seint sagt um Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vorrar þjóðar að hann sé stífur. Hann virtist njóta sín vel innan um hina ráðherrana á fundinum en eitthvað var athyglin þó að bregðast honum. Ég var nokkuð spennt að heyra hvort hann reyndi ekki að koma sjónarmiðum Íslands að þegar spurt var um Nató og ESB sem voru bæði mikið í umræðunni. En Össur var ekkert að hafa fyrir að reyna að svara enda upptekinn við annað: að fylgjast ekki með. Í miðju svari eins ráðherrans fer hann allt í einu að hlæja. Ég gaf því nánari gaum og sé að hann er að lesa eitthvað í farsímanum sínum og virðist svo senda sms-skilaboð. Næst er hann kominn með neftóbakshorn í hendurnar og fer svo að róta í taupoka sem lá við hliðina á stólnum hans. Steininn tók svo úr þegar eistneski ráðherrann svaraði spurningu, sem Ísland kom við sögu í, á eistnesku og Össur tók af sér þýðingartólin, hann nennti greinilega ekki að hlusta. Síðast þegar ég vissi talar hann ekki eistnesku. Sem betur fer var þessi fundur stuttur og skorinorður svo Össur hafði ekki tíma til að fá sér blund. |
Þegar menn lesa þessa frásögn af glæstri framgöngu annars valdamesta Samfylkingarmanns landsins, þegar hann kemur fram fyrir Íslands hönd á erlendri grund, þá byrja menn að fyrirgefa þeim valdamesta að hafa tekið þá afstöðu að hitta helst aldrei nokkurn útlending.
Utanríkisráðherra Íslands lætur til sín taka á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, og minnir heimsbyggðina á, hverju hún missti af þegar Ísland var ekki kosið í öryggisráðið.