L iliane Bettencourt er erfingi L’Oréal auðæfanna, ríkasta kona Frakklands og lenti nýverið í vandræðum með skattamál sín, meðal annars vegna bankareikninga í Sviss og eyjar sem gleymdist að færa til bókar.
Í vikunni fylgdi Bettencourt fordæmi bandaríska auðjöfursins Warren Buffet og fór fram á að lagður yrði sérstakur skattur á þá tekjuhæstu. Undir áskorun þess efnis skrifuðu 15 franskir auðkýfingar, þeirra á meðal bankastjóri Société Générale.
Gary Becker hagfræðiprófessor vekur á því athygli á vef sínum að tillaga Buffets gerir ráð fyrir að 99,7% skattgreiðenda greiði óbreytta skatta og skattar verði aðeins hækkaðir á þau 250 þúsund heimili sem hafi yfir 1 milljón dala í árstekjur. Becker segir að þessi skattlagning muni hafa hverfandi áhrif á baráttuna við fjárlagahallann, jafnvel þótt skattar á þetta litla brot heimila yrðu hækkaðir verulega. Og svo veltir Becker öðru fyrir sér.
Warren Buffet sannfærði 68 milljarðamæringa til að fylgja fordæmi sínu og gefa helming auðæfa sinna til góðra mála. En hvers vegna hefur Buffet ekki lagt til að hinir vellauðugu gefi ríkinu vænar fjárhæðir til að bæta fyrir það sem hann segir vera fáránlega lága skatta á tekjur þeirra og eignir. Ég hygg að hann og aðrir sem lofað hafa að gefa auðæfi sín til góðra mála ættu bágt með að treysta ríkinu til að fara með þetta fé. Buffet gefur til að mynda mest af sínum eigum til Gates Foundation en ekki til ríkisins. Hann leggur traust sitt á hvernig sá sjóður ráðstafar fjármunum. Þegar haft er í huga hve hikandi menn eru að færa ríkinu stórar gjafir hvers vegna ættu menn að gera ráð fyrir að ríkið verji auknum skatttekjum á skynsamlegan hátt? |
Það er nefnilega ekki þannig að ríkið taki eitthvað pínupons af tekjum þjóðfélagsins til sín á Vesturlöndum. Það tekur alltof mikið og hefur alltof miklar tekjur. Það eyðir hiklaust öllum tekjunum og yfirleitt nokkru betur. Þess vegna er halli á rekstrinum og skuldir hrannast upp. En ráðið við eyðslufíkninni er ekki aðeins stærri skammtur næst; hærri skattar og fleiri lán.
Það þarf að höggva að rótum vandans með því að takmarka eyðslufé stjórnmálamannanna. Það verður ekki gert að gagni nema með hellings lækkun á sköttum, helst þannig að skattbyrði lækki yfir línuna.