Ö gmundur Jónasson svaraði því til í Kastljósi í gær að hann teldi vænlegast að flest ofanjarðar og neðan væri í „almannaeigu“ en var þó aðeins spurður um Grímsstaði á Fjöllum. Með almannaeigu á Ögmundur vitanlega við ríkiseigu. Kæmist hann mikið nær þessu markmiði en að fá fulltrúa alþýðulýðveldis með 1.300 milljónir þegna til að sjá um helstu eignir?
Ýmsir aðrir hafa hins vegar séð sérstaka ástæðu til að fagna kaupum Kínverjans á Grímsstöðum sem einstaklingsframtaki. En hafa menn eitthvað fyrir sér í því að þetta sé einkaframtak? Hvar hefur það komið fram? Hvernig stendur á því að á meðan almennir Kínverjar eru settir í tukthús fyrir tilraunir til að blogga um deiliskipulag í Sjanghæ hefur þessi svo lausan tauminn hjá einræðisherrunum að hann er farinn að skipuleggja í óbyggðum hinum megin á hnettinum?
Hverjum gera menn til hæfis til að verða milljarðamæringar í einræðisríki?
K nattspyrnusamband Íslands auglýsir nú sem mest það má í útvarpi að landsmenn eigi að mæta á Laugardalsvöllinn til að styðja landsliðið í leik gegn Kýpverjum: „Strákarnir okkar þurfa á öflugum stuðningi að halda til að sigra leikinn.“
En hvað með andstæðinginn? Hvenær verður gerð tilraun til að sigra hann?