F lestar skattahækkanir eru réttlættar með því að þær lendi á eigendum breiðu bakanna svonefndu. Stórfelldar hækkanir á tekjuskatti einstaklinga undanfarin ár, sem hófust vel að merkja þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum árið 2007, eru dæmi þar um. Þótt skatturinn hafi alltaf verið stighækkandi með auknum tekjum vegna persónuafsláttar ákvað núverandi ríkisstjórnarmeirihluti að bæta við þrepum til að auka á stigmögnunina. Nú blasir það við öllum sem ekki eru á skilanefndartaxta að þótt næg vinna sé í boði er yfirtíðin ekki sérlega freistandi þegar tekjuskatturinn einn og sér er yfir 46% auk þess sem alls kyns bætur eru tengdar tekjum manna.
Morgunblaðið tók hús á Kristmundi Þórissyni bifvélavirkja og framkvæmdastjóra á Almenna bílaverkstæðinu og segir frá því í blaðinu í dag.
Þó eftirspurnin sé mikil eftir þjónustu verkstæðisins er Almenna bílaverkstæðið ekki opið um helgar og virka daga er látið duga að vinna frá 8 til 5, og stundum til 6. Ein ástæða þess að eftirspurninni er ekki mætt með lengri opnunartíma og helgaropnun segir Kristmundur að skattaumhverfið dragi úr mönnum hvatann til að bæta við sig vinnu. „Ungir menn um þrítugt, til dæmis, sem ættu undir eðlilegum kringumstæðum að taka glaðir við allri þeirri aukavinnu sem þeim býðst, þeir vilja ekki aukavinnuna í dag því svo stór hluti af viðbótartekjunum fer í skattinn,“ segir hann. „Skattaumhverfið virðist vera komið algjörlega úr böndunum og er farið að letja og skemma fyrir okkur. Það er pirrandi að hugsa um þetta, því þeir sem eru duglegir vilja ekki vinna sér inn meira þó þeir gætu, og myndu með því skapa sér aukatekjur sem gætu svo farið í að greiða niður skuldir eða örva verslun og þjónustu.“ |
Það er nefnilega þannig að þótt sköttum sé beint að hinu þægilega skotmarki á breiðu bökunum hafa þeir áhrif á fleiri.