V instri grænir eru ekki einn af hrunflokkunum, að minnsta kosti ekki nema á Álftanesi. En hverjir voru það sem byrjuðu að blása í þá bólu fyrir 10 árum að leikskóli ætti að vera „frír“? Hinir flokkarnir vildu ekki vera minni höfðingjar og byrjuðu að blása með, Sjálfstæðisflokkurinn að þeirri áeggjan í Reykjavíkurbréfum Styrmis að kasta frá sér hugsjónum sínum og elta fylgið inn á miðjuna.
Nú er ekki aðeins leikskólarnir sjálfir fjárhagslega gjaldþrota, langir biðlistar til staðar og laun starfsmanna lítilfjörleg, heldur einnig flest sveitarfélögin sem reka þá. Fyrir tæpu ári lýsti Vefþjóðviljinn því hvernig notendur leikskólanna taka þátt í kostnaði við rekstur þeirra, ef þátttöku skyldi kalla:
Fyrir nokkrum árum þótt ekki tiltökumál að foreldrar greiddu um helming kostnaðar við leikskólapláss barna sinna. Nú greiða þeir sem greiða mest innan við 15%. Það má nefna sem dæmi að þeir foreldrar sem taldir eru geta greitt hæstu leikskólagjöldin í Reykjavík (eru hvorki ráðuneytisstjórar í námsleyfi né einstæðir forstjórar) greiða kr. 15.243 fyrir 5 ára barn í 8 stunda vistun. Eigi þeir annað barn í leikskóla fellur gjaldið á það eldra niður – eða færist öllu heldur á skattgreiðendur. Þá greiða foreldrarnir samtals kr. 20.655 fyrir tvö börn. Það eru innan við kr. 500 á dag. Svo eru menn hissa á biðröðunum í kerfinu eða því að laun starfsmanna leikskólanna séu ekki stórbrotin. |
Þetta hefur lítið breyst. Foreldrar taka sáralítinn þátt í kostnaði við leikskólavist barna sinna. Framlag þeirra dugir vart fyrir matnum sem börnin fá í skólanum.
Það eru nær 20 þúsund börn í leikskólunum. Það mun vanta innan við 800 milljónir króna til að koma í veg fyrir að þeim verði lokað á mánudaginn kemur. Það eru tæpar 4.000 krónur á barn á mánuði. Tvöhundruð krónur á dag!
N ú æpa menn hver í kapp við annan að ákvörðun verðlagsnefndar fjármagns í seðlabankanum hafi verið röng. Nefndin hækkaði verð á fjármagni um fjórðung úr prósenti í morgun. Helstu notendur lánsfjár, atvinnurekendur, eru eins og vænta má sérlega ósáttir við þessa ákvörðun. Sumir hafa óskað eftir afsögn seðlabankastjórans.
Hér eru menn sem fyrr að gagnrýna afleiðingar af ónýtu kerfi frekar en kerfið sjálft. Hvers vegna stýrir hið opinbera verðlagi á peningum? Hvers vegna gefur hið opinbera út peninga?
Rifu Íslendingar sig ekki upp úr fátækt og basli á fyrsta fjórðungi síðustu aldar án þess að hér væri ríkisseðlabanki með einkarétt á útgáfu gjaldmiðils? Sjálfur Seðlabanki Íslands var ekki stofnaður fyrr en 1961. Saga hans er vart við barna hæfi því útgáfa hans á krónunni hefur verið nær samfelld svikamylla. Eru nokkur önnur dæmi þess að stofnun eða fyrirtæki hafi komist upp með það í 50 ár að afhenda viðskiptavinum svikna vöru? Krónan sem bankinn gefur út hefur nær aldrei haldið verðgildi sínu innan eins árs og oft jafnvel rýrnað verulega innan eins mánaðar og stundum yfir nótt á meðan sérstakar gengisfellingar tíðkuðust. Á tuttugu ára afmæli bankans neyddist hann til að gefa út nýja krónu, með hundraðfalt verðgildi hinnar fyrri. Þá hafði verðgildi krónupenings rýrnað um 99% frá stofnun bankans. Síðan hafa önnur 97% krónunnar gufað upp. Og nú er svo komið að handhafar krónunnar mega ekki lengur skipta henni í aðra gjaldmiðla eða verðbréf nema með sérstöku leyfi úr seðlabankanum sjálfum! Bankinn afhendir ónýta vöru og meinar fólki að skipta henni í eitthvað nothæft.