Í Morgunblaðinu var um helgina fjallað um réttindi og skyldur transfólks, en dæmi um transfólk er „einstaklingur sem fæðist í karlmannslíkama en upplifir sig sem konu“, eða „fæðist í kvenmannslíkama en upplifir sig sem karl“. Nú mun standa yfir nefndarstarf til að semja lagafrumvarp um réttarstöðu þessa ágæta fólks, en ekki telja allir með því nóg gert. Fram kemur í umfjöllun blaðsins að vitlausasta nefnd Íslandssögunnar tók málefni transfólks fyrir á dögunum og sýndist þar sitt hverjum, eins og skiljanlegt er:
A-nefnd stjórnlagaráðs, sem fjallaði m.a. um mannréttindakafla nýrrar stjórnarskrár, varð ekki á eitt sátt um að taka sérstaklega til réttinda transfólks í 6. gr. sem fjallar um jafnræði, með því að setja orðið kynvitund í upptalningu greinarinnar. Breytingartillaga Silju Báru Ómarsdóttur um að bæta orðinu inn, sem borin var undir atkvæði á 17. ráðsfundi, var felld með 11 atkvæðum á móti 10 en 3 sátu hjá. Ástrós Gunnlaugsdóttir, sem var einn flytjenda tillögunnar, var forfölluð á fundinum, og því afar mjótt á munum. „Það hefði haft geysilega þýðingu hefði þetta komist inn,“ segir Anna K. Kristjánsdóttir. „En að þetta skuli ekki hafa komist inn verður til þess að maður fer strax að hugsa: hvernig er hægt að breyta þessari stjórnarskrá?“ |
Já, þetta var spennandi kosning í hinu gríðarlega mikilvæga stjórnlagaráði. Og af því að stjórnlagaráðsmenn hafa lagt áherslu á, að hinar merkilegu tillögur þeirra að stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði, þrátt fyrir að stjórnarskráin sjálf mæli raunar fyrir um allt aðra aðferð við stjórnarskrárbreytingar, þá er einsýnt að allar mikilvægustu breytingartillögur sem tekist var á um í ráðinu, hljóta ekki síður að vera bornar undir þjóðaratkvæði í nafni lýðræðis, gegnsæis og nýs Íslands. Ríkisútvarpið gæti svo efnt til þáttaraðar undir stjórn Ævars Kjartanssonar um hverja einustu tillögu og um þær alla mikilvægustu myndi Jón Ormur Halldórsson aðstoða Ævar við að ræða við Þorvald Gylfason um málið. Hvernig kaus Þorvaldur um kynvitundina? Fær þjóðin ekki örugglega að eiga síðasta orðið í málinu? Eru menn hræddir við þjóðina?
ÍÍ dag er lokadagur afmælistilboðs Bóksölu Andríkis. Fram til miðnættis býðst metsölubók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, á aðeins 2.499 krónur, og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og alltaf í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 900 króna sendingargjald. Hefðbundið verð bókarinnar er 3.999 krónur. Nýlega var tekin upp sú nýbreytni að viðskiptavinir geta valið um hvort þeir greiða með greiðslukorti eða með millifærslu á bankareikning.