Föstudagur 12. ágúst 2011

224. tbl. 15. árg.

Í vikunni urðu miklar óeirðir í Bretlandi. Þegar skríll telur sig hafa fengið frítt spil, fylgja því alltaf eignaspjöll. Rúður eru brotnar, hús og bifreiðar skemmdar. Í Bretlandi þróuðust spellvirkin lengra. Fyrst með ítrekuðum þjófnuðum úr sundurmoluðum verslunum, en áður en yfir lauk voru nokkrir látnir eftir að bifreið hafði verið ekið á hóp manna sem reyndu að verja eigur sínar og nágranna sinna. Hafi slíkt verið gert með vilja, er augljóslega um stóralvarlega glæpi að ræða.

Eins og svo oft áður, þá eiga slíkir menn sér afsakendur. Slíkir afsakendur telja jafnan að í raun sé sökin hjá öðrum en glæpamönnunum sjálfum. Þeir búi einfaldlega við bág kjör, þeir hafi „engin tækifæri“ og hafi „misst vonina“. Það sé hinn gamli sökudólgur, „þjóðfélagið“, sem hafi brugðist þeim, en ekki öfugt.

Þegar hryðjuverkamenn réðust á Bandaríkin í september 2001, þá vantaði ekki slíka afsakendur. „Af hverju hata þeir okkur?“ spurðu þeir, fullvissir um að alls kyns „yfirgangur“ Bandaríkjanna og vestrænnar menningar hefði í raun kallað slík viðbrögð fram. Bandaríkin skipti sér af málum um allan heim, málum sem þeim komi ekkert við, og þeim þurfi ekki að koma á óvart að upp úr sjóði. Þegar hryðjuverkamenn sprengdu í Madrid og mikið manntjón varð, þá urðu margir til þess að skella skuldinni á ríkisstjórn Aznars og stuðning hennar við Bandaríkin. Margir munu hafa hætt við að kjósa Aznar nokkrum dögum eftir árásina, vegna þessa, þótt einhverjir hafi líka hætt við það vegna viðbragða hans sjálfs.

Slíkir afsakarar hafa átt greiða leið í vestræna fjölmiðla undanfarin ár. Núna eru útvarpsstöðvarnar fullar af þeim vegna óeirðanna í Bretlandi. Hver á fætur öðrum fer með þulurnar um unga fólkið sem hvorki hefur „von“ né „tækifæri“, en ríkið mun víst eiga að sjá því fyrir hvorutveggja.

Á síðustu árum hefur aðeins ein skýr undantekning verið frá því að útvarpsstöðvar fyllist af sérfræðingum sem vilja endilega útskýra gerðir illræðismanna. Þegar illmennið Breivik myrti tugi ungra Norðmanna datt engum fjölmiðli í hug að leita einhverrar réttlætingar á morðunum eða að setja Breivik og einhvern hugsanlegan „málstað“ hans í samúðarfullt ljós.

Og auðvitað ekki. Það skiptir engu máli hvaða „málstað“ slíkir illvirkjar telja sig hafa. Jafnvel þótt „málstaðurinn“ væri ágætur, þá skipti það engu máli. Þótt Breivik hefði verið sannfærður um að illa væri búið að fötluðum í Noregi, og hann vildi því kenna Verkamannaflokknum lexíu, þá skiptir það nákvæmlega engu. Hann framdi fyrirlitleg illvirki sem enginn „málstaður“ bætir eða réttlætir.

Menn geta verið reiðir yfir einhverju, með réttu eða röngu, en það veitir þeim nákvæmlega engan rétt til að taka lögin í eigin hendur. Þetta skilja bresk yfirvöld, sem hika ekki við að handtaka og sækja til saka þá sem fremja spellvirki og eignaspjöll. Og hinum almenna heiðarlega Breta dettur ekki í hug að standa þar með ofstækismönnum gegn lögreglunni.