Fimmtudagur 11. ágúst 2011

223. tbl. 15. árg.

H vers vegna þurfa helstu leiðtogar Vesturlanda alltaf að drífa sig heim úr sumarleyfum þegar fréttir berast af því að „fjárfestar séu órólegir“. Þegar vísitölur lækka um 5% stytta Zapatero og Merkel sumarfríið sitt og æða heim til að ræða „ráðstafanir til að róa markaði“. Þetta þýðir með einum eða öðrum hætti að almenningur fær reikning – með hærri sköttum eða verðbólgu. Fjármunum er dælt í bankakerfið og í gegnum það til annarra fyrirtækja til að koma í veg fyrir að menn taki afleiðingum gjörða sinna.

Ekki ber á slíkum viðbrögðum þegar markaðir hækka um 5% á skömmum tíma. Þá virðist ekki þurfa að róa markaðinn.

Þó er það nú þannig að það er lítið gagn að markaði ef menn mega aðeins fá skilaboð um hagnað en ekki tap.

M enn með hulin andlit fóru um og unnu skemmdarverk á eigum samborgara sinna. Öllu lauslegu, frá hnullungum til matvæla, var kastað að opinberum byggingum, helst inn um glugga. Lögreglumenn sem reyndu að standa vörð um mikilvæga starfsemi voru grýttir og og lamdir með tiltækum bareflum.

Í Bretlandi eru þessi verk kölluð sínu rétta nafni, ofbeldi og skemmdarverk og sjálfsagt þykir að handtaka og draga skemmdarvarga og ofbeldismenn fyrir dóm. Á Íslandi var ofbeldinu gefið hið sakleysislega heiti „búsáhaldabylting“ og fautarnir verðlaunaðir með því að óskaríkisstjórn þeirra tók við völdum.