Miðvikudagur 10. ágúst 2011

222. tbl. 15. árg.

V instrimenn eru svo eyðslusamir á annarra manna fé, að ef þeir ráða nógu lengi þá sligast allt í kringum þá undan álögum og skuldum. Og á endanum geta þeir ekki sótt sér nægilega mikið fé í vasa annarra til að halda leiknum áfram. Og þá verður öngþveiti.

Margaret Thatcher, kom orðum að þessu í sjónvarpsviðtali 5. febrúar 1976

Socialist governments traditionally do make a financial mess. They always run out of other people’s money.

Og þetta á ekki aðeins við um þá vinstrimenn eina sem fylla þá flokka sem í daglegu tali eru kallaðir vinstriflokkar. Aðrir flokkar, um alla Vesturálfu, hafa átt sín tímabil, þar sem peningum skattgreiðenda er dælt úr ríkissjóði. Ríkið er þanið út, verkefnunum fjölgað, „metnaðarfull lög“ eru sett, sem hafa í för með sér óhugnanleg útgjöld til langframa, „réttindi“ hagsmunahópa á hendur skattgreiðendum eru aukin, og þannig má áfram telja. Víðast hvar í Vesturálfu hefur hið opinbera verið skuldsett svo ofboðslega að mikil hætta er á því, að ekki takist að vinda ofan því stóráfallalaust.

En hvað ber að gera? Eins og Vefþjóðviljinn hefur oft sagt, þá kemur aðeins eitt til raunverulegra greina: Stórfelldur niðurskurður opinberra útgjalda, ríkis og sveitarfélaga. Og þá er ekki átt við tímabundinn sparnað, málamyndaniðurskurð hér, hálft prósent þar, frestun einhvers í eitt ár hér.

Það þarf grundvallarbreytingu í afstöðu til hins opinbera. Enn er það svo, að flestir reyna að tosa sem mest til sinna mála, en láta útgjöld annað yfir sig ganga. Hugsunin virðist oft vera þessi: Svo lengi sem við mótmælum ekki nýju hlaupabrautinni mun íþróttamafían ekki mótmæla styrknum til kórferðarinnar okkar.

Þetta verður að breytast. Skattgreiðendur verða taka til varna og mótmæla frekjuhópunum sem heimta ný útgjöld til hugðarefna sinna. Menn verða að hætta að líta svo á að hið opinbera eigi að sjá þeim fyrir skemmtunum, tómstundastarfi, æfingavöllum, finnskum hljómsveitarstjórum, áhorfendastúkum, verðmiðateljurum Samkeppniseftirlitsins, bæjarlistamönnum, sundlaugarennibrautum og félagsvísindadeild Háskóla Íslands – svo örfá dæmi séu nefnd.

Þetta er það sem þarf að gera. En það tekst ekki nema fólk taki að andmæla harðlega hinni samfelldu kröfugerð á hendur ríki og sveitarfélögum. Það verður einnig að vinda verulega ofan af útgjaldaaukningu undanfarinna ára. Og í prófkjörum flokkanna eiga kjósendur að hugsa til þess hvernig þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa staðið sig. Hvaða þingmenn eru til dæmis einarðir talsmenn skattgreiðenda? Eða borgarfulltrúar í Reykjavík? Þeir hafa kannski mestar áhyggjur af því hvað það gengur hægt að leggja nýju hjólreiðastígana.