Þriðjudagur 9. ágúst 2011

221. tbl. 15. árg.

H ér var lagt fram lítið dæmi á sunnudaginn um iðnaðarmann sem stendur frammi fyrir því að bæta við sig verki upp á 100 þúsund krónur. Það var niðurstaðan úr þessu dæmi að hann héldi eftir 35% af greiðslunni en 65% færu í virðisaukaskatt, tryggingagjald, tekjuskatt og lágmarks framlag í lífeyrissjóð. Því til viðbótar á hann á hættu að barna- og vaxtabætur skerðist. Að því loknu gæti staðið innan við fjórðungur eftir. Er að undra að mönnum þyki freistandi að sleppa því að taka Steingrím, Indriða og Jóhönnu með í reikninginn?

Það kemur ekki á óvart að iðnaðarmenn bjóði 20 til 50% afslátt af uppsettu verði með virðisaukaskatti haldi menn þremenningunum utan við málið.

En eins og svo oft í viðskiptum þá þarf að minnsta kosti tvo til. Þeir sem kaupa þjónustuna þurfa einnig að afla tekna til að greiða fyrir hana.

Maður sem bætir við sig vöktum hjá þýðingarþjónustu utanríkisráðuneytisins. Hann situr sveittur við fram á kvöld og snarar tilskipunum um lestarferðir, vínrækt og nautaat og þiggur 195 þúsund krónur fyrir. Af þeim greiðir hann allt að 46,21% í tekjuskatt. Eftir lífeyrisgjöld fær hann um 100 þúsund krónur útborgarðar.

Ef hann greiðir iðnaðarmanninum 100 þúsund krónurnar fyrir viðvikið fara sem áður segir 65% í skatt og annan lögboðinn frádrátt. Af 195 þúsund krónunum enda 35 þúsund hjá iðnaðarmanninum.

Til að eiga fyrir 35 þúsund krónum handa iðnaðarmanni þurfa menn að bæta við sig 195 þúsund krónum í laun.

Allir vinna.