L eiðtogar Evrópusambandsríkjanna verða nú að aflýsa sumarleyfum sínum og sitja neyðarfundi eða liggja í símanum hver með öðrum, til að reyna að fresta næsta efnahagshruni í álfunni. Hvert Evrópusambandsríkið á fætur öðrum kemst nú í þá stöðu að eiga ekki fyrir skuldum sínum, og með evruna reyrða um hendur og fætur telja þau sér allar bjargir bannaðar, aðrar en þær að gráta utan í Þjóðverjum.
Og ástandið er ekki bundið við Evrópu eina. Bandaríkin hafa skuldsett sig svo ofboðslega að vandséð er að þau geti greitt skuldirnar með öðru móti en því að prenta sig út úr þeim. Forðast þannig formleg vanskil en taka á sig verðbólgu í staðinn.
Grunnvandinn er sá sami: Allt of mikil ríkisútgjöld. Undanfarin ár hafa ríkisútgjöld þanist út á ógnarhraða. Sífellt finnast ný „framfaramál“ sem þarf að sinna og hagsmunahópur sem þarf að friða. Fréttamenn bera saman aðstæður á hverju sviði í ólíkum löndum, og gefa svo þá einkunn að þeir sem eyði mestu, þeir sem leggi mestar byrðar á skattgreiðendur, þeir „standi fremst“, en aðrir „standi þeim að baki“.
Á allra síðustu árum hefur verulega hallað undan fæti í opinberum rekstri á Íslandi. Fyrir örfáum árum var búið að greiða upp allar erlendar skuldir íslenska ríkisins, sem er einstakur árangur, en síðustu misserin hafa menn gjörsamlega misst stjórn á eyðslunni. Og fengu auðvitað mikið hrós fyrir. Brjálæðisleg fæðingarorlofslög þóttu æðisleg, tónlistarhúsið er víst með frábæran hljómburð, Héðinsfjarðargöngin eru svo breið að þar hefði Hannibal Valdimarsson getað rekið fílahjörð í gegn. Hvert einasta bæjarfélag þarf glæsilegan íþróttavöll og enn veglegri sundlaug. En allt kostar þetta gríðarlega fjármuni.
Og þegar búið er að eyða, eyða og eyða, og hækka skatta aftur og aftur, þá koma spekingar í sjónvarpsþætti eða skrifa á delluvefsíður: Frjálshyggjan hefur brugðist.
„Evrópski seðlabankinn“ mun reyna að slá efnahagshruni á frest með hrossalækningum. En það eina sem getur bjargað skuldsettum ríkjum Vesturálfu er stórfelldur niðurskurður opinberra útgjalda, niðurskurður sem lætur núverandi „sparnað“ hljóma eins og hvert annað grín.