V efþjóðviljinn hvetur til stórátaks gegn skattsvikum. Fyrsta skrefið er að fækka starfsmönnum við eftirlit hjá skattstjórum um helming. Að því búnu má lækka virðisaukaskattinn í 15% án undanþágu. Tekjuskattur einstaklinga má svo lækka (ásamt útsvari) í 15% um leið og allar undanþágur, frádrættir og þrep leggjast af.
Þarf að útskýra það í löngu máli hvaða áhrif það hefði á til að mynda þá sem selja alls kyns þjónustu að leggja 15% virðisaukaskatt í stað 25,5% ofan á útselda vinnu sína? Og um leið á viðskiptavini þeirra? Kannski eitt dæmi um tekjurnar á jaðrinum?
Iðnaðarmaður sem búinn er að vera duglegur þennan mánuðinn sér auðvitað að ef hann bætir við sig vinnu tekur Steingrímur 46,21% af viðbótartekjunum. Hann þarf einnig að greiða af laununum 8,65% tryggingagjald í ríkissjóð.
Þegar hann hefur lokið því ásamt að skila lágmarks lögboðnum lífeyrisiðgjöldum lítur dæmið um það bil svona út:
Viðbótartekjur með vsk. | 100.000 |
Virðisaukaskattur | 20.319 |
Tryggingagjald | 6.345 |
Til greiðslu launa og lífeyrissjóðs | 73.337 |
Lágmarks lífeyrisgreiðsla | 8.800 |
Stofn til tekjuskatts | 64.537 |
Tekjuskattur | 29.822 |
Í vasann | 34.714 |
Þessu til viðbótar eiga menn svo á hættu að bætur á borð við barnabætur og vaxtabætur skerðist við viðbótartekjur. Vaxtabætur skerðast um 8% af tekjuskattsstofni og barnabætur um 3 til 9% eftir fjölda barna. Í óhagstæðasta tilviki getur fjárhæðin sem endar í vasa iðnaðarmannsins skerst um 10.971 krónu til viðbótar. Þá standa eftir 23.743 krónur af þessum 100 þúsund sem hann átti kost á að fá greiddar fyrir verkið.
76,3% skattur. Njaaa.