S íðan í vor hafa um eitt hundrað bifvélavirkjar verið skráðir atvinnulausir. Á dögunum þurfti fyrirtækið Hekla bifvélavirkja og auglýsti eftir einum slíkum. Þegar hundrað manns í stéttinni eru skráðir atvinnulausir hefði mátt búast við fjölda umsókna, en sú varð nú ekki raunin. Þegar búið var að auglýsa þrisvar kom loksins ein umsókn, en hún var frá manni sem þegar var í starfi, og sá dró umsóknina til baka, því vinnuveitandi hans hækkaði við hann launin þegar hann frétti af umsókninni. Hefur sjálfsagt ekki viljað verða fyrir því sjálfur að vanta bifvélavirkja og fá engan.
Í Morgunblaðinu í morgun er talað við Ólaf B. Jónsson deildarstjóra hjá Heklu. Hann segist hafa starfað í viðgerðageiranum síðan 1977 og hafa séð ýmislegt, en ástandið sé sértaklega slæmt núna, það sé svo erfitt að fá menn til starfa. Guðmundur Ingi Skúlason, framkvæmdastjóri Kistufells, segir í blaðinu að „svarta hagkerfið“ sé að stækka: „Skattlagning spilar hér inn í. Hún er glórulaus … Með lægri sköttum kæmi meira upp á yfirborðið.“ Margir vinni nú „svart“ að bílaviðgerðum í bílskúrum hér og þar, en þá minnki gæðin, sem komi niður á öryggi bílanna. Kveðst Guðmundur til dæmis hafa séð bremsur sem séu beinlínis hættulegar eftir slíkar viðgerðir.
Mikið ólán var það, að Íslendingar skyldu endilega þurfa að fá yfir sig vinstristjórn, beint ofan í gjaldþrot bankanna. Ríkisstjórnin þvælist fyrir og spillir efnalagslífinu á hverju sviðinu á fætur öðrum. Og á stjórnarheimilinu er skilningsleysið á efnahagsmálum svo algert, að sumir telja sig í raun hafa unnið mikið og gott endurreisnarstarf. Með tímanum nær efnahagslífið sér auðvitað á eitthvert strik, þrátt fyrir jafnvel þessa ríkisstjórn. En það verður mun seinna og mun rýrara í roðinu en verið hefði, ef þessi stjórn hefði ekki dunið á landsmönnum.