Í vikunni var rifjað upp í örfáum orðum að bandaríska bóksölukeðjan Borders hefði fyrir fáum árum neitað að selja hina skemmtilegu bók, Tinna í Kongó. Væri keðjan nú komin í þrot. Skýringin á því að þessi teiknimyndasaga var ekki lengur boðin til sölu í verslununum var á þá leið að tekist hefði að finna í bókinni móðgandi viðhorf til svertingja. Á sama tíma sáu Borders-menn ekkert að því að selja í verslunum sínum menningarrit eins og Mein Kampf og Kommúnistaávarpið. Hann er nefnilega vandfýsinn, rétttrúnaðurinn.
Á morgun mun verða efnt til „druslugöngu“ í Reykjavík og þarf ekki að efa að Ríkisútvarpið mun segja vandlega frá göngunni fyrir, á meðan og eftir hún fer fram. Tilgangurinn göngunnar mun vera að „færa ábyrgð frá þolendum kynferðisbrota á gerendur“, en í einhverjum hugarheimum er heimurinn þannig, að hann telji þolendur bera ábyrgð á brotum gegn sér.
Auðvitað dettur engum vitibornum manni slíkt í hug. En öðru hverju ærast nokkrir baráttumenn þegar einhverjum verður það á, að hvetja fólk til að fara að öllu með gát, gæta þess til dæmis að verða ekki ósjálfbjarga vegna ölvunar á almannafæri og svo framvegis, því þá sé fólk í meiri hættu að verða fyrir kynferðisofbeldi. Slíkar ráðleggingar halda baráttumennirnir jafnan að séu til marks um að menn telji þolandann í raun bera ábyrgð á því sem henti hann.
Sú upphrópun er dæmigerð fyrir það sambland af hugsunarleysi og pólitískum rétttrúnaði sem sífellt veður uppi, og nýtur til dæmis gríðarlegs skilnings á Ríkisútvarpinu. Í öðrum málaflokkum dettur mönnum ekki í hug að skilja vel meintar ráðleggingar með svo vitlausum hætti. En þegar sumir málaflokkar eru annars vegar, þá víkur skynsamleg hugsun merkilega oft fyrir hugaræsingi og öfgum.
Eftir viku verður mesta ferðahelgi ársins. Fyrir hana mun lögreglan hvetja fólk til að gæta þess að læsa hurðum og loka gluggum. Engum dettur í hug að þar með sé ábyrgðin á innbrotum færð „frá gerandanum á þolandann“. Það blasir einfaldlega við að sá sem skilur eftir opinn glugga er í meiri hættu en aðrir að fá óboðinn gest inn til sín. En ábyrgðin er auðvitað eftir sem áður hjá hinum óboðna gesti en ekki værukæra húseigandanum. Og sama á auðvitað við annars staðar. Ef að skýrslur lögreglu benda til dæmis til þess að drjúgur hluti þolenda kynferðisofbeldis hafi verið í þessu eða hinu ástandinu þegar brotið var gegn honum, og gat því ekki varið sig, þá er ekkert að því fólk sé varað við því ástandi. Og að menn séu hvattir til að líta eftir vinum og vinkonum sem þannig er ástatt fyrir, svo sem á útihátíðum eða skemmtistöðum. Það þarf verulegt skilningsleysi til að bregðast við slíkum ábendingum með þeim ofstækisfulla hætti sem algengur er hjá baráttumönnunum.