Miðvikudagur 20. júlí 2011

201. tbl. 15. árg.

N úverandi stjórnarherrar hafa lítinn skilning á efnahagsmálum. Þeir hafa lítinn skilning á þörfum viðskiptalífsins en vita að þeir eru tortryggnir á þær. Þeir hafa lítinn skilning á áhrifum skatta á fólk, en vita að þeir vilja hafa þá sem hæsta. Núverandi stjórnarherrar hafa til dæmis hækkað álögur á eldsneyti en skilja ekkert í því að með minnkandi akstri minnki skatttekjur ríkisins, þrátt fyrir hækkunina.

Í Morgunblaðinu í dag var talað við Jónínu Snorradóttur sem í tuttugu ár hefur rekið hárgreiðslustofuna Höfuðlausnir. Hún segir að það sem geri rekstur sinn erfiðan nú, séu þau gjöld sem bæst hafi á hann: „Það á auðvitað ekki bara við um okkur heldur þurfa öll fyrirtæki í landinu að standa skil á hærri virðisaukaskatti og hærri launatengdum gjöldum. Á sama tíma verðum við að fara mjög varlega í allar verðhækkanir og fyrirtækið hefur þurft að taka á sig mikinn aukakostnað bara til að geta haldið starfseminni gangandi.“

Og skattagleði stjórnvalda hefur marga galla. Jónína segir að einn þeirra sé að nú sé mjög freistandi, bæði fyrir hárgreiðslufólk og neytendur að unnið sé „svart“. Hársnyrtistarfið sé þannig að hægt sé að stunda það í heimahúsi, inni á baði, í bílskúrnum og í leiðinni sleppa við skattbyrðina, hefur blaðið eftir Jónínu. Gróflega megi ætla að ríkissjóður taki til sín um og yfir helminginn af verði klippingarinnar í formi skatta á laun og rekstur. Jónína bætir við: „Svarta vinnan leggur svo aftur ósanngjarnan verðþrýsting á okkur sem rekum okkar hárgreiðslustofur löglega og stöndum skil á öllum gjöldum. Um leið held ég að verið sé að gera hársnyrtastéttinni ákveðinn óleik með svartri vinnu, því aðbúnaðurinn, gæði þjónustunnar og upplifunin við að fara í klippingu er aldrei sú sama í heimahúsi og þegar komið er á hárgreiðslustofu þegar allt kemur til alls. Bæði er því verið að venja kúnnana við óeðlilegt verð og eins er hárgreiðslumaðurinn að venja sinn kúnnahóp við allt annan og lægri staðal.“

Ekkert af þessu skilja stjórnvöld. Þau skilja ekki heldur hvers vegna starfsfólki Jónínu á höfuðlausnum hefur fækkað að undanförnu. Fyrir stuttu voru starfsmennirnir sex en mest höfðu þeir verið tíu. Nú eru þeir fjórir. En Jóhanna og Steingrímur halda áfram að hækka skatta og gjöld, þrengja að atvinnulífi og „verja störfin“. Þau telja sig lyfta grettistaki á hverjum degi, en gallinn er sá að þau skella því alltaf niður í veg fyrir atvinnulífið í landinu.

Þetta er það sem þeir fá, sem kjósa vinstristjórn yfir sig og aðra.