Fimmtudagur 7. júlí 2011

188. tbl. 15. árg.
Eva Joly:  Bankarnir ykkar vissu að krónan væri á niðurleið og mæltu með því að fólk tæki lán í erlendri mynt. Það er hræðilegt að heyra.

Egill Helgason: Hræðilegt, já.

– Úr viðtali Egils Helgasonar við Evu Joly í Ríkissjónvarpinu 8. mars 2009.

Í öllu talinu um að „axla ábyrgð“ í kjölfar bankahrunsins er það athyglisvert að umræðustjóri ríkisins situr sem fastast. En Vefþjóðviljinn er ekki að fara fram á afsagnir einstakra starfsmanna Ríkisútvarpsins, bara að það verði lagt niður.

En þá að hinum alræmdu lánum í erlendri mynt. Voru það bankarnir sem héldu þeim að fólki? Vafalaust eru einhver dæmi um það en hér er álit eins helsta álitsgjafans fyrir og eftir hrun á ráðleggingum bankanna um lán í erlendri mynt:

Mér finnst hræðsluáróður íslensku bankanna um að Íslendingar verði að hafa tekjur í erlendum myntum undarlegur því öll höfum við tekjur í íslenskum krónum sem fylgja erlendum myntum þegar til lengri tíma er litið. Þær leiðbeiningar bankanna um að viðkomandi lántakandi verði að hafa tekjur í erlendum gjaldeyri til að geta tekið erlent lán eru að hluta til réttar, en byggjast á því að viðkomandi einstaklingur sé asni. Sá hinn sami hlýtur að geta stýrt fjármálum sínum og notfært sér í ofanálag lægri vexti í erlendum myntum en bjóðast hér heima.

Þessa gagnrýni á tregðu bankanna til að lána fólki í erlendri mynt setti Vilhjálmur Bjarnason háskólakennari í viðskiptafræðum og formaður félags fjárfesta fram í viðtali við Morgunblaðið 19. febrúar 2007.

Og þeir voru fleiri álitsgjafarnir sem gáfu almenningi sömu ráð allt fram að hruni og jafnvel eftir að krónan tók dýfu vorið 2006, sem hefði mátt læra af. Hér er annað heilræði frá því tíu mánuðum fyrir hrun bankanna eða í desember 2007:

Því eins og þeir vita sem hafa tekið gjaldeyrislán er það nánast eins og kraftaverk hversu fljótt fer að ganga á höfuðstólinn

Egill Helgason ráðlagði fólki að taka erlend lán því það væri nánast eins og kraftverk hve hratt gengi á höfuðstólinn. Rúmu ári síðar situr sami Egill í settinu og tekur undir að slík ráð hafi verið alveg hræðileg.