Mánudagur 4. júlí 2011

185. tbl. 15. árg.

V ið völd situr ein allra versta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Hún þrengir að borgurunum jafnt og þétt, skerðir frelsi, hækkar álögur og virðist sérstaklega í nöp við allt sem hefur reynst vel í landinu. Á sama tíma er stjórnarandstaðan máttlaus og andlaus og býr auk þess við það sjálfskaparvíti að innan allra stjórnarandstöðuflokkanna er fólk sem hleypur undir bagga með ríkisstjórninni hvenær sem henni liggur á. Ríkisútvarpið leggur stjórnvöldum það lið sem starfsmenn þess mögulega geta. Svokölluð fréttastofa fréttir helst ekki af óþægilegum málum og ef hún getur ekki þagað um þau endalaust eru þau afgreidd á eins fáum sekúndum og mögulegt er, og aldrei nefnd síðan. Þáttastjórnendur Ríkisútvarpsins eru svo eins óhlutdrægir og menn þekkja. Aðeins örfáir fjölmiðlar sinna því mikilvæga hlutverki að veita stjórnvöldum aðhald, enda hatast ríkisstjórnarsinnar við þá.

Hvað gera þá venjulegir borgarar sem þurfa að búa við þetta ástand? Skattahækkanir, höft, boð, bönn – að ekki sé minnst á eignabruna hjá fólki sem fjármálaráðherra vinstrigrænna finnst ekki vera venjulegt fólk? Jú, þetta fólk tryggir að stjórnvöldum sé sýnt málefnalegt aðhald og fleiri raddir heyrist en stjórnarsinna einna. Meðal þess sem menn gera til þess, er að kaupa og lesa hið ómissandi tímarit, Þjóðmál.

Á dögunum kom út sumarhefti Þjóðmála og kennir þar margra grasa eins og jafnan. Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður fjallar um nokkur eftirmál bankahrunsins, dýrkunina á rannsóknarnefnd alþingis og aðför stjórnvalda að pólitískum andstæðingum, sem nú ber hæst á ákæru nýs meirihluta á alþingi gegn Geir Haarde fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Jón gagnrýnir rannsóknarnefnd alþingis harðlega og segir fyrirkomulag hennar, verkefni og vinnubrögð ekki hafa samrýmst reglum réttarríkisins um réttláta málsmeðferð. Vel rökstuddum og efnislegum andmælum hafi ekki verið getið á viðeigandi stöðum í skýrslu nefndarinnar og hafi hreinlega ekki verið birt í prentaðri útgáfu hennar, „enda bárust fréttir af því að stærstu hlutar skýrslunnar hefðu þegar verið farnir í prentun þegar þessi málamyndakostur á andmælum var gefinn. Skýrari verða dæmin ekki um valdhroka og fyrirfram gefnar niðurstöður.“

Og Jón bætir við: „Þrátt fyrir þetta tóku hinar talandi og skrifandi stéttir þjóðfélagsins skýrslunni eins og Guð hefði talað. Stjórnmálamenn, álitsgjafar og jafnvel biskupinn dásömuðu skýrsluna án þess að hafa lesið hana. Síðan setti Alþingi nefnd um skýrsluna sem nálgaðist verkefnið gagnrýnislaust og gerði útdrátt úr henni. Hjarðhegðunin á Alþingi leiddi síðan til samþykktar þingsályktunartillögu frá hinni dæmalausu Atlanefnd. Dómstólar landsins hafa einir nálgast skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á yfirvegaðan hátt. Þannig liggur fyrir, m.a. frá Hæstarétti, að skýrslan sé ekki sönnun og fullyrðingar teljist ekki sannaðar með því að vísa einungis til skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Jón lýkur grein sinni á þessum orðum: „Núverandi ríkisstjórn hefur ekki leiðrétt skuldir heimila og fyrirtækja. Ríkisstjórnin færði erlendum vogunarsjóðum bankana á silfurfati með tryggum hagnaði. Ríkisstjórnin reyndi að binda Ísland á skuldaklafa með fráleitum Icesave-samningum. Ríkisstjórnin lánaði fjármálafyrirtæki, sem féll ári síðar, 26 milljarða. Ríkisstjórnin hefur látið eignir sparisjóðanna brenna upp í rúm tvö ár með aðgerðaleysi sínu. Ríkisstjórnin hefur flæmt burt erlenda fjárfesta, hækkað skatta og heykst á niðurskurði ríkisútgjalda. Raunveruleg sakaratriði á hendur fjármálaráðherra og forsætisráðherra hrannast upp á sama tíma og þau standa fyrir tilhæfulausum pólitískum ásökunum og ofsóknum á hendur Geir H. Haarde.“

Í Þjóðmál skrifar Óli Björn Kárason brýningargreinina Manifesto hægri manns, eins og Vefþjóðviljinn hefur áður vitnað til. Páll Vilhjálmsson skrifar í tilefni af metsölubók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, og setur margt í athyglisvert samhengi. Vefþjóðviljinn er ekki sammála greinarhöfundi um allt, sérstaklega þegar hann tekur að gagnrýna frjálshyggjuna sem honum er gjarnt, eins og fleiri vinstrimönnum, að hafa fyrir rangri sök. Hvorki Páll né aðrir gagnrýnendur frjálshyggju hafa til dæmis enn bent á þá reglu, sem frjálshyggjan afnam, en sem hefði komið í veg fyrir eða gerbreytt hruni bankanna. Bankarnir hrundu ekki vegna skorts á reglum eða opinberu eftirliti.

Fjölmargt annað efni er í Þjóðmálum. Björn Jón Bragason sagnfræðingur fjallar um leyndarhyggju núverandi stjórnvalda, og lýsir erfiðleikum sínum við að nálgast upplýsingar eftir að gegnsæið var innleitt í orði kveðnu í jóhönnulandi. Hannes H. Gissurarson spyr hvort verndun eða friðun sé vænlegri til árangurs í umhverfismálum og fer yfir nokkrar hrakspár friðunarsinna sem mikið rúm fengu í fjölmiðlum en reyndust haldlausar í raunveruleikanum. Vilhjálmur Eyþórsson fjallar um hugsanaráðuneytið sem virðist hafa verið stofnað, eða í það minnsta kosti tekinn grunnur að, með nýjum fjölmiðlalögum, þar sem ríkið tekur að skipta sér af efni frjálsra fjölmiðla. Lára Björg Björnsdóttir skrifar um hina áhrifamiklu bók Engan þarf að öfunda sem fjallar um daglegt líf undir harðstjórninni í Norður-Kóreu og af þjóðmenningarvettvanginum skrifar Margrét Gunnarsdóttir um Ingibjörgu Einarsdóttur, konu Jóns forseta, og daglegt líf þeirra hjóna. Ótalmargt fleira efni mætti nefna en verður þó ekki gert, enda gera menn ekki allt sem þeir mega, jafnvel ekki á frjálshyggjusinnuðum ritum.

Tímaritið Þjóðmál fæst í Bóksölu Andríkis, bæði ársárskrift og stök hefti.