V efþjóðviljinn vitnaði á dögunum til greinar eftir Jesús Huerta de Soto frá haustinu 2008 þar sem hann sagði ástæðu fjármálakreppunnar nokkurs konar undirboð helstu seðlabanka heimsins. Seðlabankarnir hafi haldið vöxtum of lágum og þar með skapað óraunhæfar væntingar. Hér fylgir meira úr grein spænska hagfræðiprófessorsins.
Austurríska hagfræðin kennir okkur að það er því miður ekki hægt að auka hagsæld og stöðugleika með útlánaþenslu eða með því að þynna gjaldmiðilinn út. Hagsæld krefst sparnaðar og hann krefst aga og fórna. Það er ekki nóg með að sparnaður hafi ekki aukist, heldur hefur hann jafnvel verið neikvæður, sérstaklega í Bandaríkjunum, hin síðari ár.
Aukin útlán og peningar án raunverulegrar aukningar sparnaðar er aldrei annað en skammtímalausn og oft ekki einu sinni það. Það leikur ekki lengur vafi á því slík útþensla veldur samdrætti þegar til lengri tíma er litið. Lán án innistæðu (lán sem ekki er mætt með samsvarandi sparifé) ýta undir óhóflega bjartsýni athafnamanna. Bygginga- og fasteignamarkaðurinn á undanförnum árum er gott dæmi um þetta. Með öðrum orðum má segja að athafnamennirnir hegði sé eins og þeir séu að mæta auknum sparnaði almennings sem síðan reynist ekki vera til staðar. Þessi afvegaleiðing í hagkerfinu hefur óhjákvæmilegar afleiðingar. Fjármálabólan, sem tengd hefur verið óraunhæfri oftrú (e. irrational exuberance), hefur slæm áhrif á sjálft efnahagslífið (raun hagkerfið) og fyrr en síðar sígur á ógæfuhliðina, samdráttur tekur við og sársaukafull en nauðsynleg leiðrétting á sér stað. Í leiðréttingunni felst undantekningarlaust endurskoðun á allri fjárfestingu, sem verðbólga hefur bjagað. Það sem markar lok veislunnar og upphaf timburmanna getur verið ýmislegt og er breytilegt frá einni verðbólu til annarrar. Það sem batt enda á veisluhöldin sem nú eru um garð gengin var hækkun á hrávöruverði, einkum olíu, vandinn vegna undirmálslána á fasteignamarkaði í Bandaríkjum og að lokum þrot mikilvægra fjármálastofnana þegar það blasti við að skuldir þeirra voru orðnar meiri en eignir (útistandandi fasteignalán). Það vantar ekki að ýmsir sérhagsmunahópar krefjast frekari lækkunar vaxta og innspýtingar fjármagns, svo þeir sem það vilja geti lokið fjárfestingu sinni án þess að tapa fé. Þessi „flótti inn í framtíðina“ myndi þó aðeins fresta lausn vandans og gera hann erfiðari viðureignar. Kreppan er skollin á vegna þess að hagnaður fyrirtækja sem framleiða fjárfestingarvörur (e. capital-goods companies), sérstaklega í bygginga- og fasteignageiranum, hefur gufað upp. Verð neysluvara er farið að hækka meira en fjárfestingarvara og í ljós er komið að ákvarðanir þeirra um fjárfestingar voru bjagaðar af ódýru fjármagni. Við þessar aðstæður hefst hin sársaukafulla leiðrétting og til viðbótar við hrap í framleiðslu og aukið atvinnuleysi verðum við nú vitni að mjög skaðlegri hækkun á neysluvörum, eða kreppuverðbólgu (e. stagflation). Hagfræðileg greining og kalt mat á nýliðnum atburðum í efnahags- og fjármálakerfinu sýna svo ekki verður um villst að seðlabankar, sem eru í raun miðstýringarvald peningastefnunnar, geta alls ekki stýrt peningamálum við síbreytilegar kringumstæður. Hið sama blasti við þegar Sovétríkjunum mistókst að miðstýra efnahagslífinu í heild. Þegar austurrísku hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek leiddu rök að því að sósíalisminn gengi ekki upp efnahagslega má segja að þeir hafi um leið fellt dóm yfir seðlabönkum. Það á að sjálfsögðu einnig við Seðlabanka Bandaríkjanna, Alan Greenspan fyrrverandi bankastjóra og Ben Bernanke núverandi formann bankastjórnar. Samkvæmt rökum Mises og Hayeks er útilokað að skipuleggja efnahagsstarfsemi með miðstýringu þar sem stjórnkerfið nær aldrei að afla þeirrar þekkingar sem til þarf. Hayek kallaði það raunar „banvænan hégóma“ (e. fatal conceit) þegar menn trúa því að þeir séu svo almáttugir eða að minnsta kosti snjallir og öflugir að þeir geti fínstillt peningamálastefnuna. Í stað þess að Seðlabanki Bandaríkjanna og einnig að nokkru Seðlabanki Evrópu mildaðu sveiflurnar í efnahagslífinu hafa þeir að öllum líkindum verið þeirra helstu orsakavaldar og magnað þær upp. Vandinn sem blasir við Ben Bernanke og stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna og öðrum seðlabönkum (ekki síst þeim evrópska) er því ekki auðleystur. Árum saman hafa þeir vanrækt skyldur sínar og eru nú komnir í öngstræti. Þeir eiga tvo kosti. Annars vegar geta þeir leyft leiðréttingu að eiga sér stað nú þegar. Þótt hún sé nauðsynleg verður hún ekki tekin út án sársauka. Hins vegar geta þeir fengið sér afréttara og reynt að framlengja veisluna sem er þó rót vandans. Fari þeir síðari leiðina er enn meiri hætta á kreppuverðbólgu þegar fram í sækir. (Þetta voru einmitt mistökin sem menn gerðu eftir hrun verðbréfamarkaða árið 1987. Þau mistök leiddu til verðbólgu við lok níunda áratugarins og niðursveiflu á árunum 1990 til 1992.) Aukið framboð á ódýru fjármagni við þessar aðstæður myndi jafnframt koma í veg fyrir nauðsynlegt uppgjör á vonlausum fyrirtækjum og endurskipulagningu atvinnulífs miðað við raunhæfar forsendur. Það gæti jafnvel framlengt kreppuna um óákveðinn tíma. Það gerðist einmitt í Japan þar sem svo oft var reynt að koma atvinnulífinu í gang með ódýru fjármagni og auknum ríkisútgjöldum að hætti Keynes að örvunin hætti að virka. Það verður því að skoða nýjustu aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna í því ljósi að stofnunin býr við klofinn persónuleika, því hún hefur tvö ósamrýmanleg markmið; að hemja verðbólgu og dæla peningum í fjármálakerfið sem lánveitandi til þrautarvara. Það má því segja að aðgerðir bankans séu eins og fálm í myrkri. Einn daginn bjargar hann AIG, Bear Sterns, Fannie Mae og Freddie Mac en daginn eftir lætur hann Lehman Brothers fara í þrot og réttlætir það með því að „setja þurfi fordæmi og koma í veg fyrir siðferðilegt hrun eða freistnivanda. Loks tilkynntu yfirvöld svo að þau myndu kaupa óseljanlegar (verðlausar) eignir fjármálafyrirtækja fyrir allt að 700 milljarða dala. Ef fjármagna á þessa áætlun með sköttum (en ekki meiri verðbólgu) mun það þýða aukna skattbyrði á heimilin einmitt þegar þau mega síst við henni. |
Og Vefþjóðviljinn spyr sem fyrr: Hvers vegna skyldum við treysta ríkisseðlabönkum til að stýra verðlagi á fjármagni þegar verðlagsstofnanir ríkisins á nær öllum öðrum sviðum hafa verið lagðar niður? Seðlabanki Íslands stofnaði jafnvel fimm manna verðlagsnefnd fjármagns nýlega, eins og ekkert væri eðlilegra.