H ér hefur áður verið vitnað í Hjólhestinn, fréttabréf íslenska fjallahjólaklúbbsins, meðal annars vegna tilburða ríkisvaldsins til að skipta sér af klæðaburði hjólreiðamanna. Og það er fleira til umhugsunar í Hjólhestinum.
Árni Davíðsson skrifaði grein í blaðið í janúar síðastliðinn um skattmat á samgöngustyrk sem verkfræðistofan Mannvit veitti starfsmönnum sínum. Við stofuna er fátt um bílastæði og forsvarsmenn hennar freistuðu þess að leysa málið með því að greiða starfsmönnum fyrir að koma ekki á bíl til vinnu.
Hinn kosturinn var að leggja út fyrir svæði undir ný bílastæði. Stæði undir bíl getur hæglega kostað tugi eða hundruð þúsunda á ári og starfsmenn sem þeirra njóta undir bílinn sinn greiða engan skatt af hagnýtingu sinni á þeirri aðstöðu.
Skattyfirvöld lögðu hins vegar tekjuskatt á þessar greiðslur Mannvits til starfsmanna, sem komu sér í vinnu með öðrum hætti en á bíl, eins og hverjar aðrar launagreiðslur. En frá og með síðasta tekjuári heimila yfirvöld hins vegar að launþegar fái greiddar kr. 3.000 á mánuði vegna hjólreiða eða strætó „enda sé til þess ætlast af launagreiðanda að þessi ferðamáti sé nýttur vegna ferða í hans þágu“, eins og Árni segir frá í pistli sínum.
Nú er auðvitað ljóst að engin venjuleg fyrirtæki myndu líða starfsmönnum sínum að sitja í strætó á vinnutíma og í fáum tilvikum að reka erindi á reiðhjóli. Þessi regla skattyfirvalda er því óraunhæf og einungis sett til að menn geti komist í kringum lögin og fengið eitthvað greitt fyrir að skilja bílinn eftir heima. Um þetta segir Árni:
Nú getur launþegi fengið um 3.000 kr. á mánuði fyrir strætó eða reiðhjól „enda sé til þess ætlast af launagreiðanda að þessi ferðamáti sé nýttur vegna ferða í hans þágu“. Þ.e. launþegi getur fengið um 36.000 kr. á ári fyrir strætó eða reiðhjól sem nýtt eru vegna ferða í þágu launagreiðanda. Samgöngustyrkur hefur því sömu stöðu og ökustyrkur fyrir bíl.
Glöggir lesendur átta sig á því að það var ekki þetta sem þurfti. Samgöngustyrkir voru til að bregðast við skorti á bílastæðum og komu því í stað bílastæða. Ökustyrki á að nota til að greiða fyrir akstur í þágu launagreiðanda. Að miklu leyti hafa ökustyrkir þó verið misnotaðir til að greiða launþega „ódýr“ laun sem ekki eru skattlögð og ekki er greitt af í lífeyrissjóð eða launatengd gjöld. Þessi misnotkun virðist hafa verið með vitund og vilja ríkisvaldsins því ríkið og opinberir aðilar hafa verið stórtækir við að greiða sínu starfsfólki ökustyrki fyrir akstur sem ekki hefur verið inntur af hendi. |
Árni segir svo að það sé krafa Landssamtaka hjólreiðamanna að greiðslur til að skilja bílinn eftir heima verði skattlagðar á sama hátt og afnot af bílastæðum.
Það má hins vegar segja að aðbúnaður á vinnustöðum, hvort sem það eru bílastæði, kaffistofur, bað- og búningsaðstaða fyrir hjólreiðamenn og skokkara, leikherbergi fyrir börn starfsmanna og þar fram eftir götunum séu ef til vill annars eðlis en ferðir til og frá vinnu.
Fyrirtæki sem bjóða starfsmönnum greiðslu fyrir að skilja bílinn eftir heima eru væntanlega að gera það vegna þess að það er ódýrari kostur en að útbúa bílastæði. Og starfsmennirnir sem þiggja greiðslurnar hljóta að meta þær veigameiri en bílferð til vinnu.
Því má heldur ekki gleyma alveg í þessu samhengi að strætisvagnaferðir eru niðurgreiddar um ríflega helming með beinum hætti af skattfé og svo til viðbótar með afslætti af olíugjaldi og sérstökum akreinum fyrir strætisvagnana.
En ef Vefþjóðviljinn mætti einu sinni ráða myndi hann fella niður frádráttar- og afsláttarmöguleika í tekjuskattskerfinu, hvort sem það eru ökutækjastyrkir, dagpeningar, frádráttur vegna viðhalds á húsnæði, vegna sjómennsku, sjálfur persónuafslátturinn eða afsláttur af skattprósentu vegna tekna undir ákveðnum mörkum.
Að svo búnu mætti lækka tekjuskattinn ásamt útsvari niður í 20%.