Fimmtudagur 12. maí 2011

132. tbl. 15. árg.

Þ egar verk ríkisstjórnarinnar eru skoðuð er ekki að undra að hún kenni sig aðeins við norræna velferðarkerfið en ekki aðra þætti norrænna þjóðfélaga sem ýmsir hafa lengi verið norrænu ríkjunum til meiri sóma. Ríkisstjórnin fetar sig jafnt og þétt í áttina að því að þriðjungur landsmanna greiði öðrum þriðjungi laun fyrir að sjá um síðasta þriðjunginn. Það er einmitt kerfið sem Svíar hafa til að mynda verið að vinda ofan af undanfarin ár. Kannski ekki í fyrsta sinn sem lausnir frá Svíum eru fluttar til Íslands daginn eftir að þær eru lagðar til hliðar í Svíþjóð.

Á myndbandinu hér að neðan segir sænskur hagfræðistúdent af hagsögu Svía á fimm mínútum. Þar segir frá því að Svíar hafi komist í álnir frá 1870 og fram yfir miðja síðustu öld. Eftir 1970 hafi þeir hins vegar lent í vandræðum vegna mikilla ríkisútgjalda og hárra skatta sem þeim fylgdu. Undanfarin 20 ár hafi menn reynt koma böndum á velferðarkerfið, draga ríkið út úr atvinnurekstri, auka frelsi á ýmsum sviðum og lækka skatta. Það hafi gefið góða raun.

Vissulega einfölduð mynd en þeir sem hafa frekari áhuga á sænskum módelum geta fræðst á málstofu RSE um efnahagslega velgengni í Svíþjóð og Kanada í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnins klukkan 12 á morgun, föstudaginn 13. maí, þar sem spurt verður hvað Íslendingar geti lært af þessum þjóðum. Framsögumenn verða Fred McMahon, varaforseti alþjóðlegra rannsókna hjá Fraser stofnuninni í Kanada og stjórnmálafræðingurinn og rithöfundurinn Fredrik Segerfeldt. Að loknum framsögum verða pallborðsumræður með þátttöku Ársæls Valfells, lektors við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og John Dizard, dálkahöfundar hjá Financial Times. Fundarstjóri verður Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur.