Miðvikudagur 11. maí 2011

131. tbl. 15. árg.

H aldið var upp á tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar í gær, með mjög viðeigandi hætti.

Í fyrsta lagi var birt ákæra, sem meirihluti alþingis efndi til gegn pólitískum andstæðingi, Geir H. Haarde. Sú ákæra var ákveðin af ofstæki og heift og sýnir vel hvaða eðli býr nú víða undir á stjórnarheimilinu. Það eðli hefur raunar merkilega oft verið haft til sýnis á þessum tveimur árum, þótt pólitísk ákæra á einstakling sé líklega ljótasta dæmið af mörgum ljótum. Verður sú framganga lengi í minnum höfð.

Þá afgreiddi ríkisstjórnin jafnframt frá sér lagafrumvarp sem ætlað er að koma til móts við þráhyggjumenn sem hafa lengi haft velgengni sjávarútvegsins á heilanum. Að stjórnvöld, sem kosin eru í upphafi efnahagsvandræða, velji slíkan tíma til að leggja til atlögu við undirstöðuatvinnuveg landsins, og ekki til að auka þar hagkvæmni og verðmætasköpun heldur til að svala heift meinlokumanna, er enn eitt dæmið um hugsunarháttinn á stjórnarheimilinu. Þar snúast verkefnin ekki um að auðvelda fólki og fyrirtækjum að skapa verðmæti og komast í gegnum kreppu. Á stjórnarheimilinu snýst allt um pólitísku kreddurnar og reyna að bæta sér upp langa eyðimerkurgöngu í stjórnarandstöðu. Hið afbrigðilega ástand vorið 2009, sem af öllum árum var notað til að halda alþingiskosningar, varð til þess að kreddufullir ofsavinstrimenn náðu völdum, og þeir ætlar ekki að sleppa þeim, hvað sem á gengur. Það þarf að jafna um allt og alla, stjórnarskrána, pólitíska andstæðinga, sjávarútveginn, skattgreiðendur og þannig áfram.

Þriðji minnisvarðinn sem afhjúpaður var í gær, í tilefni af afmæli ríkisstjórnarinnar, var minni en hinir. En hann má alveg vera nefndur með. Ögmundur Jónasson lagði fram stjórnarfrumvarp um að þyngja refsingar við mansali. Auðvitað er full ástæða til að taka hart á mansali. En það er ekki eins og ekki hafi legið refsingar við mansali. Nú liggur átta ára fangelsi við mansali en Ögmundi finnst það alls ekki duga, hann vill færa það upp í tólf. Fórnarlömb mansals er jafnframt helstu vitnin í þeim málum. Hafa menn leitt hugann að því hver staða þessara vitna er þegar refsing við mansali nálgast refsingu í morðmálum?