Þriðjudagur 10. maí 2011

130. tbl. 15. árg.

Á um tíu ára tímabili, frá 1981 til 1991, varð frjálsa kvótakerfið í sjávarútvegi á Íslandi til. Á þessum árum sátu allir flokkar á Alþingi, nema Samtök um kvennalista, í ríkisstjórnum. Meðal þeirra sem voru ráðherrar á þessum tíma voru Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þau eiga sinn þátt í því að festa kvótakerfið í sessi og að leyfð voru viðskipti milli útgerða með aflaheimildir.

Vefþjóðviljinn ákvað að taka áskorun andstæðinga kvótakerfisins og kalla það frjálsa kvótakerfið. Andstæðir kerfisins hafa miklar áhyggjur af því að viðskipti með kvóta séu frjáls. Það verður að stöðva frjálsa framsalið, segja þeir, og eiga þá við að banna verði leigu, kaup og sölu á kvóta. En þessi viðskipti með kvóta eru einn helsti kostur kerfisins. Þau opna ekki aðeins möguleikann á því að menn skiptist á aflaheimildum til að bæta nýtingu skipa heldur auka þau líkurnar á því að þeir sem hafa lag á útgerð auki við sig kvóta, bæði þeir sem fyrir eru og þeir sem vilja hefja útgerð.

Það er hætt við að ekki yrði glæsilegt ástand á ýmsum bújörðum landsins ef bændum væri almennt meinað að selja þær. Og hvernig ættu ný búmannsefni þá að eignast jörð til að hefja búskap?

En var úthlutun kvótans í upphafi ekki geðþóttaákvörðun? Fengu ekki fáir útvaldir gjafakvóta?

Því er fyrst til að svara að hafi úthlutun aflaheimilda í upphafi verið ósanngjörn breytir það því ekki að stór hluti þeirra hefur nú skipt um hendur. Núverandi eigendur kvótans nú hafa með öðrum orðum keypt hann í góðri trú í löglegum viðskiptum. En óháð þessari staðreynd þá var aflaheimildum í upphafi, á árunum 1981 til 1991, úthlutað eftir nokkuð almennum reglum. Þeir sem sótt höfðu sjóinn árin áður en kvóta var úthlutað í upphafi fengu hver sinn skerf.