Mánudagur 9. maí 2011

129. tbl. 15. árg.

H ún er verulega ógeðfelld, árásin sem gerð var á heimili Ögmundar Jónassonar og konu hans um helgina. Má þar einu gilda hvort árásarmennirnir vissu hverjir ættu heima í húsinu. Slík árás á heimili fólks, ráðherra eins og allra annarra, er stóralvarlegt mál.

Það skiptir litlu hvað fyrir árásarmönnunum vakti. Hvort sem þeir stjórnuðust af tómri skemmdarfýsn og vonsku, eða hvort þeir töldu sér trú um að þeir hefðu einhvern „málstað“ sem réttlætti slíka árás á einkaheimili, þá er glæpurinn sá sami.

En þetta síðara atriði, ímyndunin um að einhver „málstaður“ hafi afnumið lög og reglur, er alvarleg ranghugmynd sem ístöðulitlir menn hafa veigrað sér að rísa gegn af þeim þunga sem nauðsynlegur er. Allt frá gjaldþroti bankanna fyrir tveimur og hálfu ári, hafa íslensk yfirvöld verið ótrúlega lin gagnvart öllum sem kalla sig „mótmælendur“. Eftir þrot bankanna tóku menn að grýta alþingishúsið, dómkirkjuna og ýmsar opinberar stofnanir. Er eitthvað gert í því? Forseti alþingis hefur sagt frá því að ýmsar skemmdir á ytra byrði alþingishússins séu þannig að ekki sé hægt að gera við þær. Hvað er gert í því? Lögreglumenn slösuðust við skyldustörf sín. Hefur eitthvað verið gert í því? Bifreiðar voru skemmdar, meðal annars barðar að utan með „mótmælaskiltum“. Hefur eitthvað verið gert í því?

Staðreyndin er sú, að lög og reglur voru ekki felld úr gildi við gjaldþrot bankanna. Fjölmiðlar hafa vissulega slegið þann tón, að skemmdarvargar hafi aðeins verið „mótmælendur“, en sú fráleita afstaða þeirra er jafn fjarri veruleikanum og sumt var af því sem fjölmiðlarnir töldu fólki trú um fyrir gjaldþrot bankanna. Á bloggum og athugasemdakerfum netheima geta menn á hverjum degi lesið ofstæki og hróp fólks sem leynt og ljóst réttætir óhæfuverk.Þeir sem veikir eru fyrir, lesa þetta og draga af því sínar ályktanir.

Ekki er enn vitað hverjir brutu rúður Ögmundar Jónassonar og konu hans, og ekki hvað fyrir þeim vakti. Þess vegna má ekki draga víðtækar ályktanir af því athæfi enn þá. En þeirri fásinnu verður að linna, að menn hafi nokkurn minnsta rétt til ofbeldis og skemmdarverka, hversu reiðir sem þeir eru.