Helgarsprokið 8. maí 2011

128. tbl. 15. árg.

Á næstunni má vænta talsverðrar umræðu um sjávarútvegsmál. Bæði vegna frumvarps sjávarútvegsráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða og eins má gera ráð fyrir að nefnd fulltrúa sem ekki voru kosnir á svonefnt stjórnlagaþing geri einhverjar samyrkjuæfingar á sjávarútveginum. Tillaga þeirra verður vafalítið kennd við þjóðareign.

Árið 2007 gaf RSE út bók undir heitinu Þjóðareign – Þýðing og áhrif stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar. Þar lýsa sex höfundar auk Birgis Tjörvar Péturssonar, sem ritstýrði verkinu, viðhorfum sínum til þjóðareignar frá ýmsum sjónarhornum. Í upphafi bókarinnar segir Bigir Tjörvi:

Hugmyndir um að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu þjóðareign hafa vakið efasemdir. M.a. hafa vaknað spurningar um hvort slíkt ákvæði hefði einhverja þýðingu. Þýðing stjórnarskrárinnar fyrir samfélagið verður seint ofmetin. Hún er hornsteinn réttarríkisins, fjallar um grundvallaratriði í stjórnskipun landsins og um réttindi borgarana gagnvart stjórnvöldum. Henni er ætlað að hafa réttaráhrif, ólíkt árnaðaróskum á sjómannadaginn.

Deilur hafa staðið á Íslandi um réttinn til fiskveiða á Íslandsmið-um. Stjórnvöld takmörkuðu aðgang að fiskimiðunum til að koma í veg fyrir ofveiði nytjastofnanna. Niðurstaðan varð sú að takmarka réttinn við útvegsmenn, sem höfðu nýtt réttinn til að sækja sjóinn.

Frá því veiðar voru takmarkaðar hefur staða greinarinnar batnað umtalsvert, þrátt fyrir deilur um eignarréttarlega stöðu afla-heimilda. Í hnotskurn snúast þær um hvort aflaheimildirnar skuli vera eign þeirra sem gera út á miðin eða eign ríkisins.

Hugtakið þjóðareign hefur villst inn í þessa hugmyndalegu rökræðu. Í grein Sigurðar Líndal fyrrverandi lagaprófessors, sem birtist í þessu safnriti, segir:

„Þetta orðalag er villandi og hefur ýtt umræðum út í ógöngur. Ástæðan er sú að ruglað hefur verið saman eignarrétti þjóðarinnar og fullveldi ríkisins. Um eignarrétt þjóðarinnar er það skemmst að segja að hún hefur engar þær heimildir sem eignarrétti fylgja.“

Í sama streng tekur Davíð Þorláksson lögfræðingur í grein hér í ritinu. Fjöldi sérfræðinga á sviði eignarréttar hafa komist að þeirri niðurstöðu á undanförnum árum að þjóðareign sé ekki eignar-réttarlegt hugtak. Enda er þjóðin ekki persóna að lögum, fellur ekki að skilgreiningaratriðum eignarréttar og getur almennt ekki farið með þær heimildir sem felast í eignarrétti. Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og lektor í eignarétti við lagadeild Háskóla Íslands sagði í greinargerð sinni fyrir auðlindanefndina svonefndu árið 2001 að næsta ágreiningslaust væri að:

„[…] núgildandi yfirlýsing í 1. ml. 1. gr. um sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum hafi ekki aðra merkingu en sem almenn stefnuyfirlýsing löggjafans án efnislegs innihalds að eignarrétti.“

Guðrún Gauksdóttir dósent bendir á í grein sinni í þessu riti að aflaheimildir njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar sem eign. Reglur laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, aðrar en 1. gr., hafa samkvæmt því efnislegt innihald að eignarrétti. Í grein Guðrúnar segir m.a. svo:

„Niðurstaðan er sú að það sé í samræmi við núverandi réttar-stöðu að telja aflaheimildir eign í skilningi 72. gr. stjskr. Er sú niðurstaða byggð á skýringu á hugtakinu eign í 72. gr., með hliðsjón af sjónarmiðum íslenskra fræðimanna og með hliðsjón af 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu eins og ákvæðið hefur verið skýrt af Mannréttindadómstóli Evrópu. Þá hafa þau réttaröryggissjónarmið sem liggja að baki eignarréttarákvæðinu úrslitaþýðingu. “

Hugmyndina um að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum þarf að skoða í ljósi þessarar niðurstöðu Guðrúnar.

Birgir Tjörvi heldur svo áfram að rekja viðhorf höfunda:

Ef fiskur er grundvöllur afkomu okkar, verður að telja mikil-vægt að við nýtum auðlindina á hagkvæman hátt. Ragnar Árnason prófessor segir í grein sinni í þessu riti að eignarréttur sé nauðsynleg forsenda hagsældar og að skerðing á eignarrétti sé efnahagslega skaðleg. Fjallar Ragnar um hugmyndir auðlindanefndar ríkis-stjórnarinnar um ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Niðurstaða hans er svohljóðandi:

„Ljóst er af framansögðu að því fylgir efnahagslegur skaði að setja ákvæði um þjóðareign á fiskistofnum í stjórnarskrá lýðveldisins. Meginástæðan er sú að svona gjörð rýrir eignarréttinn og slíkt er ávallt efnahagslega óhagkvæmt.“

Ragnar telur að slíkt ákvæði hefði neikvæð áhrif á fjárfestingu og myndi draga úr hagvexti og að efnahagslegt tjón af þessum sökum gæti numið mjög hárri fjárhæð. Ennfremur gæti stjórnarskrár-ákvæði af þessum toga leitt til lakari nýtingar auðlinda sjávar og verri alþjóðlegrar samkeppnisstöðu sjávarútvegsins. Þetta tekur Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri undir í grein sinni í ritinu. Óvissa um eignarhald leiði til tregðu útvegsmanna til uppbyggingar fiskistofna og fjárfestinga til rannsókna á lífríki hafsins.

Rannsóknir Sigurgeirs Brynjars á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og þróun verðmætis þeirra á undanförnum árum benda til þess að brýnna sé að bæta starfsskilyrði þeirra til samræmis við aðrar atvinnugreinar en að leggja á þau auknar byrðar. Samkvæmt niður-stöðum Sigurgeirs Brynjars var verðmæti eigin fjár íslenskra sjávar-útvegsfyrirtækja árið 2001meira en allra íslensku bankanna saman-lagðra. En hafi einungis verið um um tíundi hluti samanlagðs verð-mætis íslensku bankanna fimm árum síðar.

Áður en ráðist er í að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar er mikilvægt að fram fari vönduð og málefnaleg umræða um sjávarútveg og stöðu hans hér á landi. Þá þarf að gera átak í umfjöllun um mikilvægi eignarréttar og atvinnufrelsis fyrir skynsamlega nýtingu auðlinda sjávar. Ef vel á að takast til við framtíðarskipulag á nýtingu og vernd náttúruauðlinda almennt á Íslandi þarf að byggja á því sem reynst hefur best.

Þetta prýðilega rit fæst í bóksölu Andríkis.