Þ að væri hægt að nefna ýmis hefðbundin rök gegn ríkisrekstri sem rök gegn því að ríkið reki sérstakan Íbúðalánasjóð. Ein væru auðvitað þau að þegar ríkisstofnanir tapa fé lendir tapið á almenningi. Líkt og raunin er um þessar mundir með Íbúðalánasjóðinn sem fær tugi milljarða króna frá skattgreiðendum svo hann geti staðið við skuldbindingar sínar
En hinum hefðbundnu röksemdum til viðbótar má velta því fyrir sér hversu gáfulegt það er að aðskilja skuldir heimila frá eignum þeirra eins og gerist þegar menn taka lán hjá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður veitir ekki sparnaði fólks viðtöku, hann tekur ekki við innlánum eða öðrum sparnaði.
Kosturinn við að hafa skuldir og eignir í sama banka er að verði bankinn afvelta og geti ekki endurgreitt innlán er að þá má væntanlega jafna skuldir á móti.
En svo má á móti benda á að nokkur þúsund milljarða innlán eru auðvitað tryggð í bak og fyrir samkvæmt tilskipun ESB hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda sem í eru nokkrir milljarðar.
Í vikunni mátti heyra í fréttatíma einn af hagfræðingum seðlabankans, gott ef ekki aðal, lýsa skoðun sinni á væntanlegri niðurstöðu í samráði hinna svonefndu aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Taldi hagfræðingurinn að ef kaup yrði hækkað svo og svo mikið yrði seðlabankinn að bregðast svona og hinsegin við með stýrivöxtum til að koma aftur á einhvers konar jafnvægi í efnahagsmálum.
Ætli hagfræðingurinn trúi því einlæglega því að hann geti stillt þjóðfélagið af með stýrivöxtunum sínum? Er fram til þessa eitthvað sérstakt sem bendir til þess að seðlabönkum á Vesturlöndum hafi gengið vel með þessa litlu excel-æfingu sína?