Þriðjudagur 3. maí 2011

123. tbl. 15. árg.

Á fundi um almenningssamgöngur 13 apríl síðastliðinn kynntu samgönguráð og samgönguráðherra hugmyndir ráðsins um að fresta framkvæmdum í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu og setja það fé sem þannig sparaðist, allt að 10 þúsund milljónir króna á næstu 10 árum, í svonefndar almenningssamgöngur en það eru þau samgöngutæki sem stjórnmálamenn vilja að almenningur noti.

Á fundinum komu fram hugmyndir um að „kolefnisgjald“, sem bíleigendur greiða af hverjum lítra eldsneytis, yrði látið renna til almenningssamgangna. Þá fyrst færi gjaldið að standa undir nafni því almenningssamgöngur gefa frá sér meiri koltvísýringi á farþegakílómetra en til að mynda tveir farþegar í fólksbíl.

Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er sagt frá fyrrnefndum fundi samgönguyfirvalda. Þar er meðal annars vitnað til ræðu vegamálastjóra:

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fór á fundinum yfir það hvað snýr að Vegagerðinni og er styrkt í dag. Vegagerðin hefur umsjón með ríkisstyrktu almenningssamgöngunum þ.e.a.s. sérleyfum á landi, styrktum ferjurekstri og styrktu áætlanaflugi. Fram kom í máli Hreins að stór hluti þeirra styrktu ferða sem eru í boði væru lítið nýttar af almenningi. Í ljós hefði komið við greiningu á 40 sérleiðum á landi að það hefðu verið færri en þrír farþegar í hverri ferð á 30 leiðum og færri en einn farþegi í ferð á tíu leiðum. Nýtingin á styrktum flug- og ferjuleiðum er betri en eigi að síður langt undir flutningsgetu. Þá sagði Hreinn að ríkissjóður hefði styrkt almenningssamgöngur um frá 1.200 til 1.500 milljóna króna á ári síðastliðin þrjú ár auk um 140 milljóna króna styrk með niðurfellingu olíugjalds vegna almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkið styrkir almenningssamgöngur um allt að 1.500 milljónir króna á ári og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggja strætisvögnunum til um 2.000 milljónir króna á ári. Upplýst er að almenningur nýtir vart þær almenningssamgöngur sem ríkið styrkir. Í 30 af 40 sérleiðum sem eru niðurgreiddar af almenningi eru færri en þrír farþegar í hverri ferð. Og „færri en einn farþegi í ferð á tíu leiðum“.

Þegar farþegar eru orðnir færri en einn í hverri ferð hljóta allir að sjá að samgönguyfirvöld vilja halda áfram þessa leið. Núllið er innan seilingar