L eiðinlegustu fréttir í heimi eru af þjarki hinna svonefndu aðila vinnumarkaðarins sem af einhverjum undarlegum ástæðum eru á góðum launum við að semja um kaup og kjör fyrir fólk sem aldrei hefur óskað eftir því. Svo fráhrindandi eru þessi tíðindi að jafnvel starfsmenn Samkeppniseftirlitsins taka fyrir skilningarvitin þegar sagt er frá því ár og síð að þessir aðilar rembist við að eiga víðtækt samráð um stærsta útgjaldalið íslenskra fyrirtækja, launakostnaðinn.
Nú hafa ASÍ og SA að sögn forseta ASÍ gefist upp á samningaleiðinni. Kannski þeir hafi þá lært eitthvað 9. apríl síðastliðinn þegar þeir vildu senda hinn almenna borgara niður samningaleiðina án þess að hann kærði sig um það.
En þótt þessir aðilar hafi ákveðið að láta af samningaleiðindunum tekur ekki betra við. Þrasinu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara sem eins og nafnið bendir til er embætti á vegum ríkisins. Stór hluti vinnuveitenda og launþega semur um kaup og kjör alla ævina án þess að leita nokkur sinni til þessa embættis. Hvers vegna á þessi hluti að greiða skatta sem fara í ríkissáttasemjara handa liðinu sem neitar að semja um kaup og kjör?
Hvernig fóru menn eiginlega að á vinnumarkaði áður en ríkissáttasemjari tók til starfa? Og líkt og hér hefur áður verið spurt: Þegar ríkið hefur á annað borð tekið að sér að semja um verð milli kaupanda og seljanda hvers vegna standa ekki fulltrúar ríkisins á bílasöluplönum og hafa milligöngu um samninga um verð á notuðum bílum?