Helgarsprokið 10. apríl 2011

100. tbl. 15. árg.

R íkisstjórnin, mikill meirihluti Alþingis, stærstu stjórnmálaflokkarnir, stærstu hagsmunasamtökin, stærstu fjölmiðlarnir, endurreistu bankarnir, matsfyrirtækin, 300 milljóna króna samninganefndin á útopnu og svo lokatilboðið: frú Vigdís heldur í höndina á þér á meðan þú skrifar undir ríkisábyrgðina.

Allt kom fyrir ekki.

Íslendingar höfnuðu því í annað sinn á skömmum tíma í almennri atkvæðagreiðslu að þjóðnýta einkaskuldir.

Gegn ofangreindu ofurefli streittust samtök sjálfboðaliða á borð við ADVICE og Kjósum.is. Þessi NEI-samtök nutu ekki sjálfkrafa fjármögnunar eins og JÁ-samtökin Áfram sem reyndust dýrkeypt yfirvarp fyrir „aðila vinnumarkaðarins“.

Áður en þessi samtök NEI-manna tóku til starfa eftir synjun forsetans bentu skoðanakannanir til að Icesave III nyti stuðnings um 65% kjósenda. Á nokkrum vikum snerist þetta við og nú liggur fyrir að samningurinn var felldur með nær 60% atkvæða.

Um leið og NEI-samtökum eru færðar þakkir er ástæða til að nefna framlag formanns og fleiri þingmanna Framsóknarflokksins og sömuleiðis þingmanna Hreyfingarinnar og þeirra fjögurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem létu ekki forystu flokksins hrekja sig af leið.

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið í öfundsverðu hlutverki undanfarnar vikur en sem kunnugt er studdi hún ríkisábyrgðina á Alþingi í febrúar. Á meðan mikill fjöldi almennra flokksmanna hefur barist gegn ofureflinu fyrir hugsjónum flokksins hefur forysta hans að mestu setið hjá. Það hlýtur að vera nöturlegt hlutskipti. En eins öfugsnúið og það kann að hljóma þá veitir niðurstaða atkvæðagreiðslunnar forystu Sjálfstæðisflokksins hins vegar nokkurt skjól til að ná áttum og sáttum við almenna flokksmenn. Í því samhengi má einnig nefna það forystu flokksins til málsbóta að hún studdi það þó að málið færi í þjóðaratkvæði eftir samþykkt Alþingis.

En þá að fjölmiðlum. Þegar ADVICE hópurinn var stofnaður 2. mars boðaði hann blaðamenn á fund sinn í Þjóðmenningarhúsinu. Enginn fjölmiðlamaður mætti, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Þegar Áfram hópurinn fór að stað með sama hætti 24. mars á Kjarvalsstöðum mættu þeir allir með suðandi sjónvarpsmyndavélarnar. Þetta er hrein bilun.

Í Icesave málinu, bæði I, II og III, hafa Ríkisútvarpið og Fréttablaðið staðið mjög þétt með stjórnvöldum. Landsmenn greiða hver um sig tæpar 18 þúsund krónur á ári til að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins og fréttir og þjóðmálaþættir þess berast inn á öll heimili í landinu, sem ætti að vera nægileg ástæða til að starfsmenn þess sýni sanngirni gagnvart sem flestum sjónarmiðum í þjóðfélaginu. Í lögum um Ríkisútvarpið eru einnig klausur um að því beri að gæta jafnvægis í umfjöllun um menn og málefni.

Fréttablaðið er sömuleiðis sent flestum landsmönnum að þeim forspurðum. Einhver hefði haldið að blað sem verðlaunaði Icesave-reikningana sem viðskiptahugmynd ársins 2007 myndi vera ögn beygt í umræðum um þessa reikninga. En nei nei. Fréttablaðið hefur ólmast í því að íslenskir skattgreiðendur taki ábyrgð á því sem blaðið taldi viðskiptahugmynd ársins, ekki ríkisstofnun ársins, viðskiptahugmynd. Nefndin sem blaðið hafði sér til halds og trausts til að verðlauna Icesave skipuðu meðal annarra Ingólfur Bender, Edda Rós Karlsdóttir, Halla Tómasdóttir, Finnur Oddsson, Friðrik Már Baldursson, Jón Þór Sturluson og fleiri góðkunningjar landsmanna í Icesave málinu fram á þennan dag.