Í
Aðalsteinn Leifsson „samningafræðingur“ taldi gríðarlega áhættusamt fyrir Íslendinga að hafna Icesave II. En 98% kjósenda reyndust betri samningafræðingar en Aðalsteinn. |
hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 10. janúar 2010 var vitnað til og rætt við Aðalstein Leifsson „samningafræðing“ og háskólakennara um Icesave II. Þá var ljóst að hinn svokallaði samningur yrði borinn undir þjóðaratkvæði. Í fréttinni sagði: „Aðalsteinn Leifsson, háskólakennari, segir að út frá sjónarhóli samningatækni væri óskynsamlegt fyrir Breta og Hollendinga að setjast að samningaborðinu og semja upp á nýtt um Icesave áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. Hann segir að sama skapi sé það gríðarlega áhættusamt fyrir Íslendinga að hafna ríkisábyrgðinni á núverandi samningi.“
Samningafræðingur segir gríðarlega áhættu felast í því fyrir Íslendinga að hafna samningi sem var þó augljóslega svo óhagstæður Íslendingum að Versalasamningar litu út sem happdrættisvinningur fyrir Þjóðverja. Nokkru síðar er samningnum hafnað með 98% gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Áhættan reynist ekki meiri en svo að ekkert neikvætt gerist í kjölfarið sem rekja má til höfnunarinnar. Lífið gengur sinn vanagang.
Samningafræðingurinn spáði því jafnframt að samningsstaða Íslendinga myndi versna til muna yrðu frekari tafir á málinu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði samviskusamlega frá speki samningafræðingsins: „Út frá samningatækni væri skynsamlegast fyrir Breta og Hollendinga að vera án samnings við Íslendinga í nokkurn tíma ef ríkisábyrgðin verður felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bið sé til þess eins fallin að styrkja stöðu þeirra og veikja stöðu Íslendinga. Afleiðingarnar fyrir Ísland gætu orðið skelfilegar.“
Er ekki alveg öruggt að fréttastofa RÚV og Spegillinn hafi tryggt sér áskrift að spádómum „samningafræðingsins“ vegna Icesave III?