Föstudagur 11. mars 2011

70. tbl. 15. árg.
Ég óttaðist að [íslensku bankarnir] færu á hausinn. Og við sætum uppi með vandamál fjölmargra breskra innstæðueigenda sem höfðu lagt verulegt fé inn í bankana. Stefna okkar var að vernda breska innstæðueigendur. Við gerðum það meðal annars í Northern Rock og gerðum það alveg heilt yfir. Og ég vildi ekki standa í þeim sporum að þurfa í reynd að draga að landi banka sem var erlendur, íslenskan banka.
– Alistair Darling lýsir haustdögum 2008 í viðtali við Ríkissjónvarpið, birt 10. mars 2011.

V

Ríkissjónvarpið spurði Alistair Darling ekki um neitt sem máli skipti.

iðtal Sigrúnar Davíðsdóttur við Alistair Darling fyrrverandi fjármálaráðherra Breta sem sýnt var í Ríkissjónvarpinu í gærkvöld var lítilfjörlegt. Þeir sem á horfðu vissu ekki nema þeir hefðu dottað á meðan því stóð. Darling var ekki spurður hvort hann teldi ríkisábyrgð eða einhvers konar siðferðilega ábyrgð skattgreiðenda á innstæðutryggingasjóðunum í Evrópu. Engin ástæða til að nefna helsta umræðuefnið á Íslandi undanfarin tvö og hálft ár.

Vefþjóðviljinn ætlar samt að reyna að sleikja beinið.

Tilvitnunina í Darling hér að ofan mætti máta við jafnræðisregluna sem ýmsir hafa nefnt vegna Icesave málsins. Það er ekkert hik á Darling vegna hennar. Það var hans hlutverk að vernda breska innstæðueigendur og breska banka. Ekki aðra. Punktur.

Viðtalið út í gegn stagaðist Darling á því að íslenskir ráðherrar og fulltrúar FME hefðu ekki talað skýrt við sig um stöðu íslensku bankanna. Þegar hann hafði sagt þetta einum fimm sinnum spurði Sigrún hvort ekki hefði verið betra að íslenskir ráðamenn hefðu komið hreint fram.

Darling nefndi sérstaklega fund hans með Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og fríðu föruneyti úr ráðuneytum og íslenska fjármálaeftirlitinu 2. september 2008. Darling segir að þessi stóri hópur frá Íslandi hafi annað hvort ekki gert sér grein fyrir stöðu bankanna eða komið fram af óheilindum. Hann segist hafa fengið sömu tilfinningu af símtali við Árna Mathiesen fjármálaráðherra í miðju hruninu 7. október. Af þeirri ástæðu hefði ekki verið hægt að samræma aðgerðir til að lágmarka tjónið af óhjákvæmilegu falli íslensku bankanna. Bretar hefðu svo gjarnan viljað hjálpa, vegna þess að hagsmunir nokkur hundruð þúsund breskra sparifjáreigenda og allra skattgreiðenda voru í húfi, en það hefði verið erfitt á meðan íslenskir ráðamenn komu ekki fram af hreinskilni.

Segjum nú að þetta sé rétt lýsing hjá Darling. Hvers vegna lögðu Bretar þá ekki fram tillögu um hvernig mætti taka á málum og lágmarka skaðann? Það voru 400 þúsund breskir innstæðueigendur í hættu. Darling var ekki viss um að íslensk stjórnvöld gerðu sér grein fyrir stöðunni 2. september. Hann virðist þó ekki hafa gert neitt á málinu fyrr en í algjört óefni var komið í byrjun október. Þá úthrópuðu bæði hann og Gordon Brown Íslendinga opinberlega. Örríki á leið í efnahagsöngþveiti þurfti síst á því að halda.

Við rógsherferðina bættist svo beiting laga um varnir gegn hryðjuverkum. Darling réttlætti þá aðgerð með því að stöðva hefði þurft peningaflutninga frá London til Íslands.

Vandinn er sá að þegar banki fer á hausinn þá geta allir sem þar eiga peninga tapað þeim og við vildum komast hjá því vegna þess að þegar einn hópur sparifjáreigenda tapar fé sínu hefur það keðjuverkandi áhrif og ég vildi fyrir alla muni komast hjá slíku. En það sem ég gat ekki búið við var að peningarnir sem áttu að vera í bankanum voru teknir og fluttir úr landi því það þýddi að breskir skattgreiðendur þyrftu að bæta hvert pund sem flutt væri á brott. Og þess vegna urðum við að grípa til ráðstafana til að frysta féð.

Hvaða fé er þetta sem var flutt frá London til Reykjavíkur? Enn virðist þetta mál vera á reiki. Sigrún Davíðsdóttir sá þó enga ástæðu til að spyrja nánar um það enda komið að næstu spurningu í handritinu. Hvers vegna í ósköpunum var Sigrún send til að taka þetta viðtal? Þóttu lífsspekiviðtöl hennar við íslenska útrásarmenn fyrir Viðskiptaráð Íslands um árið takast svona vel?

Fullyrðingar Darlings um að íslenskir ráðamenn hefðu átt að sjá fall íslensku bankanna fyrir eru líka hæpnar. Ef íslenskir ráðamenn áttu að vita nákvæmlega hvert bankarnir stefndu á fundinum 2. september vissi Darling þá sjáfur að HBOS, RBS, Bradford & Bingley, Alliance & Leicester og margir aðrir breskir bankar væru búnir að vera? Og vissi hann þegar hann færði eignir og skuldir Kaupþing Edge yfir til ING að hollenska ríkið þyrfti að bjarga þeim banka viku seinna?

Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið halda stjórnmálamenn áfram að lofa því að næst muni þeir koma í veg fyrir að bankar fari á hliðina. Þeir hafi að vísu brugðist í þetta sinn en nú verði settar reglur sem komi í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Evrópska innstæðutryggingakerfið sem brást svo herfilega verður áfram hið sama með einni breytingu. Þar sem kerfinu var um megn að tryggja 20 þúsund evrur verður fjárhæðin eðlilega hækkuð í 100 þúsund evrur. Þá líður öllum betur.