Laugardagur 5. mars 2011

64. tbl. 15. árg.

T

Fyrr en þrotabú Landsbankans hefur selt Iceland verslanirnar og aðrar eignir búsins og skilað andvirðinu til kröfuhafa er allt tal um „endurheimtur “ skot út í loftið.

vær vikur eru liðnar frá því forseti Íslands sagðist hafa synjað nýjustu Icesaveánauðar-lögum ríkisstjórnarflokkanna þriggja staðfestingar og fimm vikur eru í dag þar til landsmenn greiða atkvæði um þá fyrirætlun stjórnarherranna að leggja Icesave-ánauðina á Íslendinga. Síðasta vika hefur verið forsmekkurinn af því sem næstu fimm munu verða. Ríkisstjórnarfjölmiðlarnir munu þrýsta á almenning eins og þeir geta, ráðherrarnir munu reyna að fela sig bak við keypta sérfræðinga, Sjálfstæðisflokkurinn mun tala um eitthvað allt annað, forysta Framsóknarflokksins mun reyna að malda í móinn en Össur Skarphéðinsson mun tefla Siv fram, hvenær sem hann óttast að framsóknarmenn nái flugi.

Í vikunni var efnt til mikils áróðursfundar í fjármálaráðuneytinu, þar sem „samninganefnd Íslands“ fór með þulur yfir gagnrýnislausum fréttamönnum yfir það hve gríðarlegar „endurheimtur“ yrðu í búi Landsbankans. Auðvitað væri ágætt ef þar yrðu endurheimtur sem munaði um, því þær myndu auðvitað minnka enn líkurnar á því að nokkur málaferli verði, þótt Íslendingar afþakki að bera Icesave-ánauðina fyrir íslenska Evrópusinna. En meginatriðið, sem fréttamenn skildu auðvitað ekki á fundinum, er annað. Það sem þeir spurðu ekki um er þýðingarmikla spurningin: Hversu mikið hefur endurheimts?

Það er auðvelt að slá fram einhverjum áætlunum. Þegar þúsundir milljarða eru í spilunum þá er auðvelt að halda blaðamannafund og segja að eignasafn, sem enginn megi vita hvað sé í, hafi nú, samkvæmt þeirra „mati“, hækkað um tíu tuttugu milljarða. Allt eru þetta einhverjar áætlanir um það hvað einhverjir menn halda að einhver fyrirtæki geti selst fyrir, einhvern tíma og einhvern tíma. En hversu mikið er búið að endurheimta? Hvað af þessu er raunverulegt fé og hvað eru einhverjar ágiskanir manna í greiningardeildum? Hversu há, bindandi tilboð, er búið að fá í eignirnar?

Þetta eru lykilspurningar, ef menn á annað borð eru að ræða um endurheimtur úr búi Landsbankans. Þangað til þeim hefur verið svarað, er algerlega tilgangslaust að velta fyrir sér mati Lárusar Blöndals hæstaréttarlögmanns í Lágmúla á því hvert verði söluverð hinna og þessara tískuverslana í London á næstu árum. Menn gætu alveg eins spurt hann hvaða tölur komi upp í lottóinu í kvöld.

En þegar allir hljóta að sjá, að auðvitað á að spyrja heilaþvottarmennina á blaðamannafundinum um það hversu mikið sé í raun búið að innheimta, og hversu há bindandi tilboð hafi í raun borist, en enginn spyr að því, þá vaknar auðvitað enn ein lykilspurningin: Hvers vegna spyrja fréttamenn ekki að þessu?

Ætli það geti nokkuð verið af því að fréttastofurnar standa heilshugar með ríkisstjórninni í málinu?