Föstudagur 4. mars 2011

63. tbl. 15. árg.

Í

Arion banki hélt fund um Icesave III í gær. Andrew Speirs virtur og óháður ráðgjafi flutti framsögu í fjarveru Andrew Speirs launaðs ráðgjafa íslenska ríkisins.

gær boðaði Arion banki til fundar í þeim tilgangi að kynna efni Icesave samningsins. Fyrirfram var vitað að allir þrír framsögumenn eru fylgjandi því að Íslendingar gangist undir Icesave III. Fyrir svo óheilbrigða uppstillingu á fundi um mikilvægt álitaefni ætti Arion banki, sem að hluta er í eigu ríkissjóðs, að skammast sín. En vafalaust gera stjórnendur hans það ekki.

Einn framsögumannanna, Andrew Speirs, kynnti Arion banki með þessum hætti í tilkynningum um fundinn: „Andrew Speirs, framkvæmdastjóri hjá ráðgjafarfyrirtækinu Hawkpoint. Hann hefur 24 ára reynslu af fjárfestingarbankastarfsemi þar sem hann starfaði hjá Morgan Grenfell, Deutsche Bank og Hawkpoint. Sérsvið hans er að veita fjármálaráðgjöf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu og skuldaaðlögun fyrirtækja, kröfuhafa og stjórnvalda um víða veröld.“

Getur verið að þetta sé sami Andrew Speirs og var ráðgjafi samninganefndar Íslands í Icesave III? Sá Andrew Speirs starfar einnig hjá Hawkpoint eins og tveir aðrir ráðgjafar sem störfuðu fyrir samninganefndina. Hvað kemur til? Hvers vegna þolir það ekki dagsins ljós hver aðkoma Andrew Speirs er að Icesave III? Skammast Andrew Speirs sín fyrir sinn þátt?

Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2 flutti „frétt“ af fundinum í gær. Þar voru eingöngu sýnd brot úr ræðu Andrew Speirs en ekkert sagt frá viðbrögðum almennra fundarmanna sem voru yfirgnæfandi neikvæð á samninginn. Stöð 2 kynnti Speirs á sama hátt og Arion banki, sem fjármálaráðgjafa utan úr bæ sem hefði mikla reynslu í fjármálum um víða veröld.

Kannast einhver við þetta? Bankarnir setja upp leikþátt og fjölmiðlarnir útvarpa því hugsunarlaust. Hið minnsta er rétt að vona að engin hugsun fylgi þessum vinnubrögðum.