Þ
Portúgalskt vaxtalag er nýjasta grýlan í Icesave málinu. Ekki vilja Íslendingar greiða sömu vexti og evruþjóðin. |
eir sem í síðustu viku horfðu á Kastljós Ríkissjónvarpsins gátu eitt kvöldið séð þar tvo hæstaréttarlögmenn, Reimar Pétursson og Ragnar Hall, skiptast á skoðunum um Icesave-ánauðina. Þeir sem ekki sáu þáttinn sjálfan, en treysta á frásagnir Ríkisútvarpsins af því sem þar kom fram, fengu hins vegar þá mynd að þar hefði einn maður mætt og talað. Í seinnifréttum Ríkisútvarpsins sama kvöld var vitnað í Ragnar Hall. Á textavarpi Ríkisútvarpsins var vitnað í Ragnar Hall. Á vef Ríkisútvarpsins var vitnað í Ragnar Hall. Sennilega er það misminni að Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður hafi yfirleitt verið í þættinum. Og ef hann var þar, þá sagði hann ekkert sem máli skiptir. Er þessi Reimar yfirhöfuð til? Er þetta ekki bara einhver þjóðsagnapersóna, svona eins og Bería?
Ragnar Hall telur að engin lagaskylda hvíli á Íslendingum að gangast undir Icesave-ánauðina, en hann telur engu að síður að þeir ættu að gera það, vegna hagsmunamats. Ríkisútvarpinu þótti mikið til þess koma að Ragnar vilji að Íslendingar borgi, og margsagði frá því, en gerði minna með þá staðreynd að Ragnar segir enga lagaskyldu til þess. Það sem Reimar hafði að segja, náði engum eyrum í Efstaleiti.
Það sem Ríkisútvarpið sló upp, eftir Kastljósið, og var greinilega ætlað af þess hálfu til að skjóta landsmönnum skelk í bringu, var að Ragnar sagði að Bretar og Hollendingar þyrftu ekki að bíða álits EFTA-dómstólsins heldur gætu farið rakleitt í mál við Íslendinga. Það er alveg rétt hjá Ragnari, þótt af því sé nú ekki sama hættan og Ríkisútvarpið heldur. Og menn ættu líka að taka eftir því sem Ragnar segir, og einnig alveg réttilega: Bretar og Hollendingar gætu stefnt íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og eftir það leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Varnarþing íslenska ríkisins er í Reykjavík. Íslenska ríkinu er einmitt stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Það er hin skelfilega „dómstólaleið“ sem allir eru skyndilega svo logandi hræddir við.
EFTA-dómstóllinn leggur enga greiðsluskyldu á íslenska ríkið. Menn sem skjálfa á beinunum yfir álitum ESA og EFTA-dómstólsins virðast hreinlega halda að þessar stofnanir hafi einhver völd í málinu. Svo er ekki. Þeir sem telja íslenska ríkið skulda sér peninga, hvort sem það er ein króna eða þúsund milljónir, geta stefnt því fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
EFTA-dómstóllinn hefur nákvæmlega engin völd í málinu og álit hans leggur enga skyldu á íslenska ríkið. Menn þurfa ekki að gangast undir Icesave-ánauðina af ótta við hann. Það er engin lagaskylda á íslenska ríkinu til að leggja þessar skuldir einkabanka á skattgreiðendur. Það er mergur málsins en ekki hvar í ferlinu stefnendur ríkisins gætu óskað eftir „ráðgefandi áliti“ frá EFTA-dómstólnum í Lúxemborg.
En svona mun þetta ganga næstu vikur, samfelldur hræðsluáróður fram að kosningunum, 9. apríl. Já vel á minnst, samkvæmt lögum ber að halda allsherjaratkvæðagreiðslu um Icesaveánauðarlögin ekki síðar en 20. apríl. Síðasti laugardagur fyrir þá dagsetningu er 16. apríl og gert var ráð fyrir að þá yrði kosið enda landsmenn þá í hátíðarskapi vegna afmælis Björgvins Halldórssonar. Svo birtust skoðanakannanir sem benda til að ánauðarmenn hafi forskot og eftir það var tilkynnt að kosið yrði viku fyrr en áður var talið, 9. apríl. Menn munu því hafa einni viku skemmri tíma en þeir hugðu, til að vinda ofan af hræðsluáróðrinum og rangfærslunum sem hver tekur nú eftir öðrum.
Dæmi um hræðsluáróðurinn mátti heyra úr áróðursstöðinni við Efstaleiti í kvöld. Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður kom í sjónvarpsviðtal og sagði að ekki væri lagaskylda á Íslendingum að borga Icesave-kröfuna. En ef íslenskir dómstólar myndu samt dæma Íslendinga til þess og ef dómstólar ákveddu að Íslendingar skyldu endurgreiða Bretum og Hollendingum með sömu vöxtum og væru á nýjustu lánum Portúgals, þá yrði þetta alveg svakalega dýrt. Þannig að það væri bara betra að samþykkja samninginn sem Lárus Blöndal var að gera og borga minna af því sem við eigum alls ekki að borga neitt af.
Þetta var svo endurtekið sem fyrsta frétt í ríkissjónvarpsfréttum kvöldsins.
Það hvílir engin lagaleg skylda á Íslendingum að greiða Icesave-kröfurnar. Það eru auðvitað mjög sáralitlar líkur á því að þeir verði nokkurn tíma dæmdir til að greiða þær. En með þessum rökum Lárusar ættu menn auðvitað aldrei að verjast nokkrum kröfum. Þeir geta nefnilega aldrei verið alveg öryggir um það fyrirfram að þeir verði ekki samt dæmdir til að greiða kröfurnar og hver veit nema dómstólar bæti því ekki við, að þeir skuli greiða hinar ólögmætu kröfur langt aftur í tímann, með sömu vöxtum og ríkisstjórnin í Portúgal þarf að greiða af þeim lánum sem hún tók, ólíkt íslenska ríkinu sem aldrei tók neitt lán frá Bretum og Hollendingum og hefur raunar ekki þegið annað af þeim en hryðjuverkalög í Bretlandi.
Hvernig væri að stefna nú Lárusi Blöndal og krefjast af honum eins og tíu milljóna króna í ómaksþóknun fyrir að hafa þurft að hlusta á hræðsluáróður í viðtali. Svo mætti bjóða honum samning þar sem hann þyrfti aðeins að greiða fjórar milljónir. Sennilega myndi hann ráðleggja sjálfum sér að taka samningsboðinu. Að vísu væri engin skylda á honum til að greiða hina fáránlegu fjárkröfu, en áhættan af því að taka ekki samningnum væri auðvitað alveg ferleg. Ef málið tapaðist gæti hann þurft að greiða alla kröfuna og það með portúgölskum yfirdráttarvöxtum, margfölduðum með píi deilt með kvaðratrótinni af þvermáli innsiglishrings Lee Bucheit.