H vað gerist ef Icesave III verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni? Hvaða dómstólar, ef nokkrir, gætu fengið málið til meðferðar? Spegill Ríkisútvarpsins bar það undir Skúla Magnússon ritara við EFTA-dómstólinn í gær.
Það liggur fyrir að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur sent íslenska ríkinu formlega tilkynningu út af þessu svokallaða Icesave máli. Sú tilkynning byggir á tvennu. Annars vegar ætluðu broti íslenska ríkisins gegn tilskipun um ábyrgðarsjóði á innistæðum og hins vegar byggir hún reglunni um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis. Nú er það þannig að ef Íslendingar semja ekki um þetta mál við Breta og Hollendinga þá getur í sjálfu sér bæði mál ESA haldið áfram, það er ekki hægt að útiloka það vegna þess að það er ekki eingöngu byggt á þessari tilskipun heldur er það einnig byggt á reglunni um bann við mismunun. Og svo er heldur ekki hægt að útiloka það að einkaaðilar sem ekki hafa fengið tjón sitt bætt að fullu í Hollandi og Bretlandi, að þeir höfði mál til greiðslu skaðabóta.
Þannig að þetta er nú kannski fyrsta atriðið sem við skulum hafa í huga. Þessir Icesave samningar ljúka ekki endilega málinu fyrir fullt og allt. |
Nýju Icesave samningarnir girða ekki fyrir að íslenska ríkið verði dregið fyrir dóm. Þeir sem hrópað hafa að valið standi á milli samninga og dómstólaleiðarinnar eru ekki að segja alla söguna. Þrátt fyrir hina svokölluðu samninga um Icesave við Breta og Hollendinga kann að verða sótt að íslenska ríkinu vegna Icesave fyrir dómstólum.
Alþingi Íslendinga er með öðrum orðum að bjóða Íslendingum upp á að undirgangast ábyrgð á hrikalegum skuldum einkabanka án þess að það komi í veg fyrir að Íslendingar verði dregnir fyrir dóm vegna enn frekari skulda sama banka. Að því ógleymdu að aðrir kröfuhafar í bankann reyna nú þegar að vefengja þann forgang sem innstæðueigendum var fenginn með neyðarlögunum.
Svo er því haldið fram í alvöru að Icesave samningarnir „ljúki málinu“ fyrir Íslendinga. Ef Íslendingar samþykkja Icesave III eiga þeir bæði eftir að komast að því hve miklu þeir þurfa að punga út og hvort þeir verði dregnir fyrir dóm.
Skúli útskýrði einnig hvaða áhrif dómur EFTA dómstólsins hefði en þar hefur verið farið rangt með í umræðunni hér á landi að undanförnu.
Það er misskilningur sem komið hefur fram í íslenskum fréttum að undanförnu að ESA geti höfðað mál til greiðsluskyldu íslenska ríkisins. Það gerir ESA ekki. ESA höfðar mál til viðurkenningar á broti íslenska ríkisins en það getur hins vegar ekki höfðað mál til þess að fá íslenska ríkið dæmt til greiðslu á einhverjum peningum. |
Mál til greiðslu skaðabóta vegna Icesave verður aðeins höfðað á Íslandi.