Ég er hlynntur beinu lýðræði, bara svo það sé nú tekið fram, og hef skrifað um það kafla í bók. En ég hef séð fyrir mér að það sé réttur sem ætti bara að vera hjá þjóðinni og væri virkjaður með tilteknum hætti með fjölda áskoranna kosningabærra manna og annað í þeim dúr. Enda værum við þá búin að setja í lög og stjórnarskrá ákvæðin um það og flokka þau mál sem hægt er að krefjast þjóðaratkvæði um en undanskilja þau sem hjá flestum ríkjum eru undanskilin eins og bein fjárhagsleg málefni, fjárlög, skatta og ýmsar skuldbindingar við önnur ríki og annað í þeim dúr sem almennt er talið að sé vandkvæðum bundið að taka í þjóðaratkvæði. |
– Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í Kastljósi 21. febrúar 2011. |
Í bók sinni Við öll sem kom út haustið 2006 fór Steingrímur J. Sigfússon mikinn um mikilvægi þjóðaratkvæðis um öll mál. Hann vildi bæta við stjórnarskrána möguleika almennings til að fara fram á slíka atkvæðagreiðslu.
Slíkur afdráttarlaus og stjórnarskrárbundinn réttur þjóðarinnar stangast ekki á við það að í stjórnarskrá sé jafnframt kveðið á um möguleika tiltekins allstórs minnihluta þingmanna og/eða þjóðkjörins forseta til að skjóta málum til þjóðarinnar. |
Steingrímur skrifaði svo að 20 – 30 þúsund manns eða tiltekinn minnihluti Alþingis (27 þingmenn hið minnsta) ættu að geta skotið málum til þjóðarinnar.
Allar óskir Steingríms um leiðir að þjóðaratkvæðagreiðslu voru því ríflega uppfylltar á dögunum þegar 30 þingmenn, 40 þúsund áskorendur og þjóðkjörinn forsetinn vildu Icesave málið í þjóðaratkvæði. Bókarskrif Steingríms um þjóðaratkvæðagreiðslur eru eins og handrit að þeim atbeina sem þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave III fékk.
Þegar það lá fyrir varð Steingrímur „forundrandi.“
Hvernig óskir Steingríms rættust má taka saman í litla töflu handa honum:
Tillögur Steingríms J. Sigfússonar í bókinni Við öll um þrjár sjálfstæðar leiðir að þjóðaratkvæði: | Stuðningur við að Icesave III færi í þjóðaratkvæði birtist meðal annars með þessum hætti: |
1. Um 20 – 30 þúsund áskorendur | 1. Yfir 40 þúsund áskorendur |
2. A.m.k. 27 þingmenn óski þess | 2. Þrjátíu þingmenn studdu þjóðaratkvæði |
3. Þjóðkjörinn forseti noti málskotsrétt sinn | 3. Þjóðkjörinn forseti synjaði lögum staðfestingar. |
Í bókarkafla Steingríms um beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur er ekki stafkrókur um að undanskilja beri alls kyns mál frá þjóðaratkvæðagreiðslum. Maðurinn skrifar heilan bókarkafla um beint lýðræði og nefnir hvergi að flokka beri frá hin ýmsu málefni. Um þá sem halda slíku fram skrifar Steingrímur:
Úrtölumenn færa það helst fram gegn beinu lýðræði að sum málefni séu illa til þess fallin að leggja þau í dóm þjóðarinnar. Þau séu flókin og erfitt að ræða um þau á einföldum nótum. Jafnvel heyrast þau rök að afstaða fólks til einstakra málefna geti orðið of tilfinningabundin. Er þá væntanlega undirliggjandi sú skoðun að afstaða kjörinna stjórnmálamanna ráðist jafnan af óskeikulli og tilfinningasnauðri rökhyggju. Vafasamt er að stilla stjórnmálamönnum og almenningi upp sem slíkum andstæðum. |
Og Steingrímur hnykkir sérstaklega á því að ekkert mál sé oft stór eða smátt til að fara í þjóðaratkvæði.
Sá hinn sami almenningur og telst bær til að velja sér fulltrúa á fjögurra ára fresti til að ráða fyrir öllum sínum málum hlýtur jafnframt að vera fullfær um að afgreiða með samþykkt eða synjun hvort eitt einstakt mál, stórt eða smátt, einfalt eða flókið, nái fram að ganga. |
Það er ekki auðvelt að skilja mann sem nýlega hefur skrifað slíkt ákall um þjóðaratkvæðagreiðslur í bók en mætir svo í sjónvarp, vísar hróðugur í kenningar sínar í bókinni, og gerir að því búnu lítið úr öllu því sem hann skrifaði í bókina.