Fimmtudagur 24. febrúar 2011

55. tbl. 15. árg.
Höfundi er ljúft og skylt að viðurkenna að margir harðduglegir og áræðnir forystumenn í íslenska fjármálaheiminum hafa náð miklum árangri í starfi, vöxtur fjármálageirans og landvinningar hafi verið ævintýri líkastir. Ekkert fær mig þó til þess að trúa að bankastjórar frekar en aðrir þurfti endilega ofurlaun til að leggja sig fram í starfi.
– Steingrímur J. Sigfússon að áliðnu hausti 2006, Við öll – Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum, bls. 82, „prentuð með jurtafarfa á umhverfisvænan pappír.“

Þ

Árið 2006 gaf Moody’s efnahag Íslands einkunnina Aaa.  Steingrímur J. vildi ekki vera hjáróma í útrásarkórnum og gaf íslensku bönkunum Æáá: ævintýr, áræðni, árangur.

ví hefur stundum verið haldið að fólki að vinstri grænir séu „ekki einn af hrunflokkunum.“ Haustið 2006 gáfu stuðningsmenn Steingríms J. Sigfússonar út bók eftir hann, Við öll – Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum. Þar líkir Steingrímur útrás íslensku bankanna við ævintýri. Mikill árangur og landvinningar. En hann hafði þó efasemdir um að bankastjórar þyrftu – endilega – ofurlaun.

En hvert var helsta framlag vinstri grænna til þjóðmálaumræðunnar fyrir bankahrunið? Þeir voru vissulega í stjórnarandstöðu. Kannski telur einhver að þar með séu þeir stikkfrí. En í megindráttum höfðu vinstri grænir tvær hugmyndir fram að færa á árunum fyrir hrun. 1. Ríkisútgjöldin þarf að auka enn meira og til þess þarf að hækka skatta. 2. Gera „eitthvað annað“ en að nýta óbeislaða orku landsins.

Nú sjá vonandi allir ein helsta ástæðan fyrir hrikalegri skuldasöfnun ríkissjóðs að undanförnu er óraunhæf aukning ríkisútgjalda á árunum fyrir bankahrunið. Þar brugðust auðvitað fyrst og fremst stjórnarflokkarnir og bera ábyrgð á því  En vinstri grænir klöppuðu ekki aðeins fyrir útgjaldagleðinni heldur hvöttu menn til að auka útgjöld á öllum sviðum enn frekar. Á stjórnarflokkunum dundu látlausar ásakanir um að vegið væri að velferðarkerfinu, menntakerfið svelt og hvaðeina í ríkisrekstrinum skorið við nögl.

Vinstri grænir bera því sína ábyrgð á þeim hryllingi sem birtist á efnahagsreikningi ríkissjóðs á misserunum eftir að áfallið reið yfir.

T ryggvi Þór Herbertsson alþingismaður var gestur síðdegis á Útvarpi Sögu í gær. Þar fræddi hann hlustendur um girnilegan innmat í eignasafni þrotabús Landsbankans. Mátti víða sjá bílstjóra sleikja út um í síðdegistraffíkinni þegar þegar lýsingar á þessum kræsingum bárust í viðtæki þeirra. Tryggvi telur að eignir þrotabúsins séu svo traustar að einungis muni falla 47 þúsund milljónir króna (í erlendri mynt) á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave. Þá spurðu stjórnendur þáttarins hvort Bretum og Hollendingum hefði ekki verið boðið að hirða eignasafnið og fá eingreiðslu upp á 47 þúsund milljónir króna frá Íslendingum.

Jú þeim var boðið það, svaraði Tryggvi. En þeir höfnuðu því vegna þess að þeir kærðu sig ekki um áhættuna sem í því felst!

Tryggva Þór Herbertssyni er þar með ljóst að þjóðir sem telja tugi milljóna manna treysta ekki stöðu fína eignasafnsins. Yfir 60 milljónir Breta kæra sig ekki um áhættuna sem safninu fylgir. Tryggvi Þór vill hins vegar að 300 þúsund Íslendingar taki þessa áhættu sem er þó miklu meiri fyrir þá en milljónaþjóðir.

Kannski komast kjósendur fljótlega að sömu niðurstöðu og lánveitendur banka nokkurs sem ráðið hafði til sín háskólaprófessor sem bankastjóra: Ekki verður bókvitið í askana látið.