N ú er því ákaft haldið að sjálfstæðismönnum, að með því að forysta þeirra snúi baki við samþykktum eigin flokks og gangi til liðs við ríkisstjórnina í hennar erfiðasta máli, þá séu þeir að „setja þjóðarhag ofar flokkshagsmunum“. Þetta er sagt í von um að sjálfstæðismönnum bregði svo mjög við að fá skjall frá álitsgjöfum og vinstrimönnum að þeir missi um leið sjónar á öllu öðru.
Auðvitað er forysta Sjálfstæðisflokksins ekki að gæta þjóðarhags með ömurlegri ákvörðun sinni í vikunni. Fyrir nú utan það augljósa, að það er alls ekki í þágu þjóðarhags að leggja tugi ef ekki hundruð milljarða króna – í erlendum gjaldeyri – á þjóðarbúið, og það er alls ekki í þágu þjóðarhagsmuna að senda þau skilaboð um heimsbyggðina að hér búi þjóðflokkur sem hægt sé að fara hvernig sem er með; að fyrst megi beita hann hryðjuverkalögum og kippa þannig síðustu voninni undan efnahagslífi hans, svo megi senda honum sjálfum reikninginn fyrir afleiðingunum og loks heimta af honum vexti líka – og þjóðflokkurinn telji sig þá hafa unnið glæsilegan sigur, þökk sé samningshörku sinni, af því að vextirnir séu lægri en fyrsta vaxtakrafa.
En það er annað sem menn ættu að hugsa um, þegar þeir segja að forysta Sjálfstæðisflokksins sé að hugsa um þjóðarhag: Ríkisstjórnin þarf ekki atkvæði sjálfstæðismanna til að koma Icesave-frumvarpinu í gegnum Alþingi. Öruggur meirihluti er fyrir málinu með atkvæðum stjórnarþingmanna. Jafnvel þótt samþykkt frumvarpsins á Alþingi væri í þágu þjóðarhags, þá hefur ákvörðun núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins ekkert með hana að gera. „Þjóðarhagurinn“ af ákvörðun Bjarna Benediktssonar kemur afdrifum stjórnarfrumvarpsins á Alþingi ekkert við, því þau afdrif eru ljós og örugg.
En ákvörðunin hefur annan og verri tilgang. Bjarni Benediktsson hefur margsagt síðustu daga að ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu fari eftir því „hversu breið samstaða“ sé um málið á Alþingi. Ef að meirihlutinn á Alþingi er nógu stór, þá megi þingmenn alveg samþykkja löglausar kröfur, sem allir vita að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafnaði í atkvæðagreiðslu. Og sú virðist vera skýringin á því hvers vegna Bjarni hleypur nú til stuðnings ríkisstjórninni. Stuðningur Bjarna og samverkamanna hans kemur samþykkt málsins á þingi ekkert við. Hann er hugsaður til þess eins að koma í veg fyrir að almennum kjósendum, sem greiða eiga reikninginn, verði hleypt að málinu að nýju. Þjóðin er einu sinni búin að skipta sér af því sem henni kemur ekki við, og það skal ekki koma fyrir aftur.
Sjálfstæðismenn geta glaðst yfir þessu og notið hróssins frá álitsgjöfum og sjálfshóls þingmanna sinna: Við erum að setja þjóðarhag ofar flokkshagsmunum. Við erum að koma í veg fyrir að þjóðin fái að greiða atkvæði.