E gill Helgason á Ríkissjónvarpinu spyr í pistli á Eyjunni í dag hvers vegna ekki sé reynt að innheimta Icesave skuldina hjá eigendum Landsbankans áður en almenningur verður látinn greiða það sem upp á vantar í þrotabú bankans. Egill tekur þó ekki fram hvað hann ætlar langt niður hluthafalista bankans en eigendur hans voru mörg þúsund og óbeinir hluthafar í gegnum lífeyrissjóði enn fleiri. Ekki er heldur vitað til þess að eigendur bankans hafi óskað eftir því að ríkið bætti hallann af rekstri þeirra. Það er hins alveg rétt að almenningi kemur þessi banki ekki við frekar en önnur hlutafélög sem leggja upp laupana. Egill ætti fyrst og fremst að beina spurningu sinni til London og Haag. Það eru stjórnvöld þar sem vilja að almenningur hlaupi undir bagga með þrotabúinu. Þau njóta að vísu verulegrar aðstoðar hér á Íslandi frá Jóhönnu, Steingrími, Fréttablaði Jóns Ásgeirs og svo nýlega frá þið vitið hverjum.
En ætli Egill hefði þolinmæði í málarekstur gegn eigendum Landsbankans? Hann hefur ekki haft mikið úthald í málarekstri gegn eigendum stórfyrirtækja hingað til, frekar leiðst það brölt allt saman. Og er hann ekki einn þeirra sem reynir að bregða fæti fyrir að Icesave-krafa Breta og Hollendinga fari fyrir dóm?
Þ essar vangaveltur Egils munu annars til komnar vegar svipaðra spurninga Ólafs Ísleifssonar hagfræðings, sem hann mun hafa lagt fram á Útvarpi Sögu. Ein ástæða þess að bankarnir gátu haldið áfram að lokka fólk inn í spilaborg sína, þar á meðal Icesave-reikningna, alveg fram að hruni voru heilræði ýmissa hagfræðinga. Hér er af handahófi frétt af stöðu mála vorið 2008.
V efþjóðviljinn þekkir til manns sem átti innstæðu í sterlingspundum í útibúi Landsbankans í Mjódd við fall bankans. Hann fékk innstæðuna aðeins bætta í íslenskum krónum, sem hvergi eru gjaldgengar nema á Íslandi. Þótt reikningurinn kallist enn gjaldeyrisreikningur er það aðeins til að gera at í honum því hann getur aðeins tekið út krónur.
Maðurinn ætlar að óska eftir því við bresk stjórnvöld að þau bæti honum pundin í pundum, rétt eins og þau gerðu gagnvart nokkur hundruð þúsund Bretum sem áttu innstæður í útibúum sama banka. Maðurinn trúir að Bretar megi ekki mismuna innstæðueigendum Landsbankans eftir þjóðerni og mun æskja liðsinnis Pers Sanderud og ESA í málinu.
Ætli Bretar vilji hætta á dómstólaleiðina ógurlegu í þessu máli?
Þessi krafa mannsins vekur svo auðvitað upp spurninguna hvers vegna allir þessir ríkisstyrkir til innlánseigenda, bæði hér á landi og erlendis, voru ekki skattskyldir? Íslenska ríkið gaf innstæðueigendum – sem í raun höfðu tapað verulegum hluta innstæðna sinna í gömlu bönkunum – einfaldlega samsvarandi innstæður í nýjum bönkum. Ýmist með því að leggja fram fé til þess, hirða það af öðrum kröfuhöfum gömlu bankanna eða bara með því telja fólki trú um að peningarnir væru þarna! Að þessi gjafagerningur skuli hafa farið framhjá skattheimtumönnum í fjármálaráðuneytinu með bæði Steingrím J. Sigfússon og Indriða H. Þorláksson á vaktinni er óskiljanlegt. Tekjuskattur af þessum styrkjum til innlánseigenda hefði sennilega hlaupið á mörg hundruð milljörðum króna.