Fimmtudagur 27. janúar 2011

27. tbl. 15. árg.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fagnar því að „löngu vitleysunni“ sé loksins lokið í kringum forsetakosningarnar vestanhafs. Við talningu atkvæða hafi komið fram brotalamir sem komi á óvart í jafnþróuðu ríki. Niðurstaðan sé álitshnekkir fyrir Bandaríkin og komi til með að veikja stöðu Bush.
– Morgunblaðið ræðir við formann VG um niðurstöður forsetakosninga í Bandaríkjunum 15. desember 2000.

H

Landsmenn sakna vandaðra stjórnmálaskýringa Steingríms J. Sigfússonar um kosningar til stjórnlagaþings. Enda góðu vanir frá fyrri tíð.

vernig var það aftur með forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 4. nóvember árið 2000? Þar greiddu hundrað milljónir manna atkvæði og naumt var á munum. Þar tók sex vikur að komast að niðurstöðu sem hæstiréttur landsins staðfesti. Hér liðu átta vikur frá því „talningu“ lauk í stjórnlagaþingskosningum, þar sem atkvæði náðu ekki hundrað þúsundum, þar til hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að vegna sex annmarka á kosningunni væri hún ógild með öllu.

Steingrímur J. Sigfússon var á sínum tíma fljótur að kveða upp úr um að niðurstaðan í Bandaríkjunum væri „álitshnekkir“ fyrir landið og myndi „veikja stöðu“ nýja forsetans sem hafði þó ekkert með framkvæmd bandarísku kosninganna að gera. Hér fóru kosningar hins vegar svo gersamlega í vaskinn að ríflega „löngu vitleysu“ síðar hefur enginn náð kjöri, frambjóðendur og kjósendur hafa verið dregnir á asnaeyrunum en 25 menn sem töldu sig hafa náð kjöri voru komnir í jólabuxurnar og reiðubúnir að setjast í nýinnréttaða sali undir ósköpin.

Og hver eru viðbrögð Steingríms hér? Ja, hafa þau verið nokkur? Nema kannski að fara þurfi aðeins yfir málið í rólegheitum í „innanríkisráðuneytinu“? Engar æsilegar stjórnmálaskýringar um „löngu vitleysu“, „brotalamir“, „álitshnekki“ og veikluð stjórnvöld

U mræður vegna stjórnlagaþingsfíaskósins halda hins vegar áfram þótt greiningar Steingríms á stöðunni sé saknað, með þeim breytingum einum að spunamenn tóku í gær við sér á ný, fyrir hönd stjórnarliða.

Enn halda stjórnarliðar áfram að syngja sinn sjálfsdáleiðslusöng, að „þjóðin“ krefjist stjórnlagaþings og að „stjórnlagaþingið verði ekki haft af þjóðinni“.

Og enn láta „fréttamenn“ alveg ógert að spyrja hvar og hvenær þjóðin hafi lýst þessari skoðun sinni. Og yfirgnæfandi meirihluti hvaða þjóðar það hafi verið, sem sat heima þegar ríkisstjórnin hélt kosningu til stjórnlagaþings í nóvember.

En þeir hafa þó spurt hvort einhver þurfi að „axla ábyrgð“ vegna þess hvernig staðið var að málum. Heimir Már Pétursson spurði Ögmund Jónasson ráðherra að þessu í gærkvöldi, en kosningin féll undir ráðuneyti hans, þótt allir viti að fyrst og fremst hafði Jóhanna Sigurðardóttir málið á heilanum, eins og öll önnur mál sín. Og hvert var svar Ögmundar Jónassonar við því hvort menn þyrftu að „axla ábyrgð“? Jú, ekki vantaði það, nú eru sko við völd menn sem axla ábyrgð sína: „Jú, og það gerum við. Við tökum þátt í umræðum um þessi mál og reynum að leiða það rétta fram í dagsljósið, hvað það er sem fór úrskeiðis.“

Þá þarf ekki að hafa frekari áhyggjur af því. Ráðherrarnir axla ábyrgð sína með því að taka þátt í umræðunum – eins og heyrðist í öskrum Jóhönnu Sigurðardóttur í gær – og „reyna að leiða það rétta fram í dagsljósið, hvað það var sem fór úrskeiðis.“ Og ef að þær tilraunir ganga illa, þá má benda ráðherrunum á að það kemur fram í forsendum Hæstaréttar Íslands.

Ekki þar fyrir, ekki krefst Vefþjóðviljinn afsagnar Ögmundar Jónassonar vegna þessa máls – en hvernig ætli vinstrimenn á þingi, í Ríkisútvarpinu og Háskóla Íslands, hefðu látið ef aðrir en þeirra menn hefðu staðið þannig að opinberum kosningum að þær hefði þurft að ógilda í Hæstarétti?