G ærdagurinn kallar á Andríkispunkta.
Í umræðum gærdagsins höfðu stjórnarliðar í vandræðum sínum greinilega komið sér upp nokkrum línum. Einna mest notuð var ímyndunin: „Stjórnlagaþingið verður ekki tekið af þjóðinni.“ Það verður að halda stjórnlagaþingið „sem þjóðin er búin að kalla eftir undanfarna mánuði“, eins og Jóhanna Sigurðardóttir hálfveinaði í örvæntingu sinni. Staðreyndin er hins vegar sú, og blasir við öllum, að „þjóðin“, sem svo er kölluð, hefur engan áhuga á stjórnlagaþinginu. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hafnaði boði um að kjósa á stjórnlagaþing. Rúmlega 60% þátttakenda í nýlegri skoðanakönnun sögðu peningum til stjórnlagaþingsins illa varið. Aðeins 28% töldu þeim vel varið. Stjórnlagaþingið er trúaratriði nokkurra meinlokumanna, ekki þjóðarinnar.
En í ljósi hins stöðuga söngs Samfylkingarmanna í gær um að „þjóðin“ vilij fá stjórnlagaþing og að ekki mætti taka stjórnlagaþingið frá „þjóðinni“, þá leggur Vefþjóðviljinn til að fjölmiðlamenn spyrji Samfylkingarmennina næst tveggja augljósra spurninga. Í fyrsta lagi: Hvar og hvenær krafðist íslenska þjóðin þess að haldið yrði stjórnlagaþing? Og í öðru lagi: „Yfirgnæfandi meirihluti hvaða þjóðar var það sem sat heima, þegar kosið var til stjórnlagaþings á síðasta ári?“ – Einhvern tímann dettur einhverjum fréttamanni sennilega í hug að spyrja þessara augljósu spurninga.
Jóhanna Sigurðardóttir talaði í gær um „stjórnlagaþingið sem þjóðin er búin að kalla eftir undanfarna mánuði“. Hvernig hafa þau köll farið fram? Með því að tveir af hverjum þremur kjósendum taki ekki þátt í kosningu til stjórnlagaþings? Hver hefur heyrt þessi köll, annar en Jóhanna og vitanlega fréttamenn sem ekki töldu ástæðu til að spyrja hana að þessu.
Í Kastljósi gærkvöldsins sagði Ögmundur Jónasson ráðherra að Alþingi hefði komist að þeirri niðurstöðu að efna ætti til stjórnlagaþings og að menn yrðu auðvitað að halda sig við þá ákvörðun. Þess vegna ætti að fara af stað og reyna að kjósa aftur. Hér sleppti Ögmundur mikilvægu atriði, sem fréttamenn benda auðvitað ekki á. Þegar ákvörðun var tekin um að efna til stjórnlagaþings var því stíft haldið fram að þjóðin krefðist stjórnlagaþings. Síðan kom hins vegar á daginn að það var alger misskilningur. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hunsaði stjórnlagaþingskosninguna. Að sjálfsögðu hlýtur alþingi að taka þau skilaboð alvarlega, ef einhverjum þráhyggjumanni dettur í hug að leggja að nýju til að efnt verði til slíks þinghalds.
Ein nauðvörn gærdagsins var að ekki hefði verið sýnt fram á að þeir fjölmörgu annmarkar á stjórnlagaþingskosningunni hefðu haft áhrif á úrslitin. Sumum finnst þetta skipta miklu máli. Ein spurning: Ef að komið hefði í ljós að stjórnvöld hefðu hætt við að láta landskjörstjórn telja atkvæðin og þess í stað hefði Jóhanna Sigurðardóttir talið atkvæðin ein, myndi þá einhver segja að það hefði verið í góðu lagi, svo lengi sem ekki væri sannað að hún hefði talið vitlaust?
Í niðurstöðu Hæstaréttar er meðal annars bent á, að „samkvæmt upplýsingum frá landskjörstjórn kom upp vafi við rafrænan lestur kjörseðla þannig að taka þurfti sérstaka ákvörðun um hvernig skilja bæri skrift kjósenda á tölustöfum 13 til 15% allra kjörseðla.“ Það voru með öðrum orðum mörg þúsund kjörseðlar svo ógreinilega útfylltir að vélarnar gátu ekki lesið þá og landskjörstjórn þurfti að reyna að stauta sig fram úr þeim sjálf. Og þessi sama landskjörstjórn hafði að engu rétt frambjóðenda til að hafa umboðsmann viðstaddan til að fylgjast með talningu og meðferð vafaatkvæða. Svo kemur einhver Ögmundur Jónasson í sjónvarpið og segir að ekki hafi verið brotið á neinum og gallar á framkvæmd kosninganna hafi ekki haft nein áhrif á úrslitin. Hvað veit hann um það?
Sláandi var hvernig málflutningur Jóhönnu Sigurðardóttur breyttist milli umferða í þingumræðunum í gær. Í upphafsræðu sinni sagði Jóhanna að mikil samstaða hefði náðst á alþingi í fyrra um að haldið skyldi stjórnlagaþing. Samstaða hefði náðst í allsherjarnefnd og við lokaafgreiðslu málsins hefði aðeins einn þingmaður greitt atkvæði á móti þinginu. Með sama hætti talaði Ögmundur Jónasson. Í lok umræðunnar var komið allt annað hljóð í strokkinn. Þá æpti Jóhanna að „íhaldið“ væri dauðhrætt við að halda stjórnlagaþing og hefði alltaf verið á móti því að „þjóðin“ fengi stjórnlagaþingið sitt. Hefur hún síðan haldið áfram að góla um „íhaldið“. Að sjálfsögðu benda þingfréttaritarar ekki á þetta mikla misræmi í málflutningi Jóhönnu.
Í þingumræðunum í gær fullyrtu stjórnarþingmenn að stjórnlagaþingið hefði verið ein helsta krafa sem fram hafi komið í óeirðunum, sem þeir kalla jafnan með velþóknun „búsáhaldabyltingu“. Gott og vel, segi menn að svo hafi verið. En sýnir áhugaleysi meginþorra fólks um stjórnlagaþingið þá ekki einmitt, eins og svo margt annað, hversu ómaklegt það er að láta eins og kröfugerðir „búsáhaldabyltingarmanna“ hafi eitthvað með íslensku þjóðina að gera? Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hunsaði kosningu til þess stjórnlagaþings, sem þingmenn segja nú að hafi verið ein meginkrafa „búsáhaldabyltingarinnar“ þeirra.
Í þingumræðu gærdagsins töluðu tveir fulltrúar hvors ríkisstjórnarflokks, þar á meðal tveir ráðherrar. Var einhver sem heyrði nokkurn tíma í máli þeirra tískuhugtökin „biðjast afsökunar“, „viðurkenna mistök“ og „hætta að berja höfðinu við steininn“ – að ekki sé minnst á almesta tískuhugtakið, sem innifelur sögnina að „axla“?
Það var áhugavert að fylgjast með viðbrögðum sumra, ekki þó allra, þeirra sem í fréttum í gær voru ranglega kallaðir stjórnlagaþingmenn. Þeir virtust standa eins og þvörur. Höfðu alls ekki búist við þessari niðurstöðu, virtust vart hafa skilið kærurnar og úrskurð Hæstaréttar enn síður. Kosningalögin skildu þeir að því er virtist alls ekki og höfðu eiginlega ekkert fram að færa til umræðunnar. Þegar kærurnar bárust var öllum tuttugu og fimm gefinn kostur á að skila andmælum og athugasemdum. Einn af tuttugu og fimm gerði það, Gísli Tryggvason. Tveir af tuttugu og fimm mættu í Hæstarétt þegar málið var tekið fyrir þar og tjáðu sig um það, annar þeirra var sá sem áður hafði skilað andmælum. Þetta er fólkið sem ætlaði sér að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og semja nýja.
Eiríkur Bergmann Einarsson, doktor í Evrópufræðum, var einn þeirra sem töldu sig hafa náð kjöri á stjórnlagaþing. Eftir að úrskurður Hæstaréttar var birtur, þar sem kosningin var ógilt, sagði Eiríkur í viðtali við vefritið Pressuna: „Ég hef fengið útgefið kjörbréf og það hefur enginn sagt mér að það sé neitt annað í spilunum.“ – Nei það var nú bara Hæstiréttur Íslands sem var að ógilda kosninguna, en að öðru leyti var ekkert nýtt í spilunum.
Þegar niðurstaða Hæstaréttar varð ljós í gær varð forseta Alþingis svo mikið um að hún frestaði þingfundi. Síðar um daginn kom Jóhanna Sigurðardóttir skjálfandi og nötrandi í þingsal og hafði þá í raun ekkert fram að færa. Höfðu stjórnvöld þó vitað um kærurnar í margar vikur, eins og allir aðrir. Rétt eins og þegar Hæstiréttur kvað upp dóma sína í lánamálum var ríkisstjórnin gersamlega óviðbúin.
Ein kenning gærdagsins var að nú ættu „stjórnlagaþingmennirnir“ hugsanlega bótakröfu á ríkið. Sumir þeirra sögðu í gær að þeir sjálfir eða félagar þeirra hefðu gert ýmsar ráðstafanir vegna þingsetunnar, sagt upp vinnu sinni, flutt búferlum og hvaðeina. Slíkt er með algerum ólíkindum. Málið er augljóst. Kosning fór fram samkvæmt sérstökum lögum um stjórnlagaþing. Í þeim lögum var getið um kærufrest. Kærur bárust innan frestsins. Hæstiréttur tilkynnti öllum tuttugu og fimm um kærurnar og gaf þeim meira að segja kost á að tjá sig um efni þeirra. Allir tuttugu og fimm áttu því að vita að endanleg kosningaúrslit væru ekki ljós. Sama má segja um stjórnvöld sem létu iðnaðarmenn hamast dag og nótt að innrétta húsnæði eins og allt væri frágengið. Það er með ólíkindum ef fólk, sem ætlaði sér að semja nýja stjórnarskrá, gat ekki skilið sáraeinföld atriði eins og kærufrest og kærðar kosningar.
Jafnvel helstu stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar er nóg boðið. Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins lætur ríkisstjórnina heyra það í leiðara í dag og krefst afsökunarbeiðni vegna kosningaklúðursins sem hann segir áfall fyrir lýðræðisþjóð. Þremur dögum eftir kosninguna, þegar talning stóð enn yfir og ljóst var að öll framkvæmd kosninganna var í skötulíki, skrifaði Ólafur í leiðara blaðsins: „Stjórnlagaþingið er merkileg tilraun í lýðræðislegum stjórnarháttum.“ Og bætti svo við ýmsum skömmum um þann mikla meirihluta kjósenda sem gat ekki hugsað sér að mæta á kjörstað og taka þátt í fíflaganginum.
Málið er í raun allt sáraeinfalt. Stjórnlagaþingið var yfirlýst áhugamál ríkisstjórnarinnar og þá einkum Jóhönnu Sigurðardóttur. Stjórnarandstaðan lét það eftir henni fyrir sitt leyti og málið rann baráttulítið í gegnum þingið. Til málsins var veitt hundruðum milljóna króna úr ríkissjóði sem er upp á lánsfé kominn. Stjórnvöld voru einráð um framkvæmdina. Árangurinn varð þessi. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hunsaði kosninguna. Kosningin sjálf var svo geysilega illa framkvæmd að Hæstiréttur Íslands ógilti hana með öllu. Í öllum löndum myndu stjórnvöld með sómakennd biðjast afsökunar og minnast aldrei á málið aftur. Á Íslandi situr hins vegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hún heimtar að fá að gera þetta allt aftur.