Ú tlit er fyrir að svonefndur sjómannaafsláttur muni hverfa í áföngum á næstu árum. Þar er átt við sérstakan afslátt sjómanna af tekjuskatti. Það er auðvitað þannig að þessi afsláttur verður tekinn af sjómönnum í stað þess að hann verði einfaldlega almennur. Sjómenn hafa andmælt því mjög að afsláttur þessi verði felldur niður en hafa varla á móti því að aðrir njóti hans einnig. En vinstristjórnin fer sína hefðbundnu leið í þessum efnum. Gott og vel.
Þetta leiðir hugann að öðrum hópi manna sem nýtur slíkra skattfríðinda að sjómannaafslátturinn er hjóm eitt.
Í dagblöðunum hefur að undanförnu birst auglýsing frá Íslandsvininum Per Sanderud forstjóra eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Íslendingar eiga aðild að ESA. Per er að auglýsa eftir starfsmanni í stofnunina.
The position is placed at grade A6 of the salary scale, starting at 111.675,48 per year. Appointments are normally made at Step 1 of a grade. A higher step can be considered on the basis of the candidate’s qualifications and experience. Depending on, inter alia, the candidates family status, allowances and benefits may apply. Favorable tax conditions apply. |
Hér eru boðin laun sem nema um 17 milljónum króna á ári. Sem kunnugt er hefur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra markað þá stefnu að hún sjálft hafi hæst laun meðal opinberra starfsmanna. Því miður hefur sú stefna ekki náð eyrum ESA þótt Íslendingar eigi þar aðild með öllum sínum gríðarlegu áhrifum sem meðal annars hafa birst í hótunum forstjórans á mannamótum vegna Icesave málsins.
En auk þessara 17 milljóna eru ýmis fríðindi í boð eftir aðstæðum. Ráðning til þriggja ára og húsnæðisstyrkur eru þar á meðal. Engin þeirra jafnast þó á við hin „favorable tax conditions“ sem í boði eru en það er einfaldlega undanþága frá greiðslu tekjuskatts af þessum 17 milljónum króna. Já það er óhætt að segja að það sé „favorable“.
Til að fá 17 milljónir króna upp úr launaumslagi á Íslandi þurfa menn að hafa tekjur upp á um 30 milljónir króna.
Eitt af hnjóðsyrðum dagsins eru „ofurlaun“. Og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að allir verði að leggja sitt af mörkum. Það er vænn hópur Íslendinga að störfum á mjög góðum kjörum í ýmsum alþjóðastofnunum og ekki fækkar þeim við ESB aðlögunina.