Í dag eru fjórtán ár liðin frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst. Síðan hafa komið út ríflega fimmþúsund og eitthundrað tölublöð á jafn mörgum dögum. Á þessum árum hefur ýmislegt borið til tíðinda í þjóðlífinu. Hvalfjarðargöng voru opnuð, Arnaldur Indriðason sendi frá sér sína fyrstu bók, mbl.is og síðar visir.is hófu fréttaþjónustu á vefnum og Árni Þór Sigurðsson settist í stjórn Heimssýnar, þaðan sem hann fór ekki fyrr en hann var kjörinn formaður utanríkismálanefndar Alþingis og tók að þrýsta umsókn um aðild að Evrópusambandinu í gegnum þingið.
En Andríki, útgefandi Vefþjóðviljans, gerir fleira en að gefa út þetta litla vefrit og halda samhliða úti bóksölu með nýjustu skrifum Frédéric Bastiat og Arnljóts Ólafssonar. Í tilefni dagsins má nefna örfá atriði úr starfsemi félagsins undanfarin misseri.
Eftir að viðskiptabankarnir komust í þrot var því linnulítið haldið að fólki að skýring þess væri að reglur hefði skort á íslenskum fjármálamarkaði. Að vísu var aldrei bent á hvaða reglur það hefðu verið, sem skorti en hefðu komið í veg fyrir bankaþrotið, en hinn almenni áróður fyrir þessari trú var hins vegar sterkur. Af því tilefni tók Andríki saman þau lög og reglur sem raunverulega giltu árin fyrir bankaþrot og birti upptalninguna í blaðaauglýsingum. Í ljós kom að regluflóðið var slíkt að upptalning á heiti reglugerðanna þakti heila dagblaðssíðu, með smáu letri.
Sumarið 2009, þegar mjög var þrýst á þingmenn að sjá til þess að umsókn um aðild að Evrópusambandinu kæmist í gegnum Alþingi, lét Andríki Capacent-Gallup spyrja landsmenn um afstöðu þeirra til inngöngunnar sem og þess hvort fara skyldi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort inngöngubeiðni yrði send. Hvort tveggja var þá mjög umdeilt á Alþingi. Niðurstaðan í báðum könnunum var mjög á skjön við það sem forysta stjórnarflokkanna og fjölmiðlar þeirra börðust fyrir. Ekki þarf að taka fram, að „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ sagði ekki einu orði af niðurstöðum könnunarinnar.
Mánuði síðar, þegar forysta ríkisstjórnarinnar og fjölmiðlar þeirra reyndu að þrýsta fyrsta Icesave-samkomulagi af mörgum vondum í gegnum Alþingi, lét Andríki gera skoðanakönnun um viðhorf landsmanna til málsins. Þau reyndust vera mjög á skjön við baráttu stjórnvalda. Að sjálfsögðu frétti „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ ekki af þeim niðurstöðum. Það var ekki fyrr en Andríki varð nóg boðið og auglýsti niðurstöðurnar í opnuauglýsingu í dagblaði sem „fréttastofan“ gaf sig og sagði frá málinu.
Í júní í fyrra lét Andríki gera skoðanakönnun sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vildi draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka. Hún vakti þann áhuga Esb-fjölmiðlanna sem við var að búast. Í dag segir Fréttablaðið hins vegar frá gagnstæðri niðurstöðu með tvöfaldri fjögurra dálka forsíðufyrirsögn.
Í árslok 2010 lét Andríki gera skoðanakönnun um viðhorf landsmanna til stjórnlagaþings, en kosning til þess hafði þá nýlega farið fram. Niðurstöðurnar urðu að rúmlega 60% landsmanna töldu peningum illa varið með stjórnlagaþingi en um 28% töldu þeim vel varið.
Þetta eru nokkur dæmi um starfsemi Andríkis. Allur kostnaður vegna þeirra var greiddur með frjálsum framlögum einstaklinga. Hagsmunasamtök og stjórnmálaflokkar komu þar til dæmis ekki við sögu. Þeir sem vilja slást í hinn ágæta hóp stuðningsmanna félagsins, og eiga þannig sinn þátt í þessháttar starfsemi í framtíðinni, geta gert það gegnum hlekk hér vinstra megin á síðunni. Þeim, sem þegar eru í þeim hópi og hafa margir verið lengi, þakkar Vefþjóðviljinn fyrir af heilum hug.