Mér finnst hræðsluáróður íslensku bankanna um að Íslendingar verði að hafa tekjur í erlendum myntum undarlegur því öll höfum við tekjur í íslenskum krónum sem fylgja erlendum myntum þegar til lengri tíma er litið. Þær leiðbeiningar bankanna um að viðkomandi lántakandi verði að hafa tekjur í erlendum gjaldeyri til að geta tekið erlent lán eru að hluta til réttar, en byggjast á því að viðkomandi einstaklingur sé asni. Sá hinn sami hlýtur að geta stýrt fjármálum sínum og notfært sér í ofanálag lægri vexti í erlendum myntum en bjóðast hér heima. |
– Vilhjálmur Bjarnason formaður fjárfesta gagnrýnir bankana fyrir að vera tregir til að lána fólki í erlendri mynt., Morgunblaðið 19. febrúar 2007. |
H
Vilhjálmur Bjarnason formaður fjárfesta taldi árið 2007 að þeir sem tækju ekki lán í erlendri mynt væru „asnar“. |
venær ætlar Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta að biðja þá húsbyggjendur afsökunar sem fóru að ráðum hans varðandi fjármögnun á íbúðarhúsnæði árið 2007? Á hátindi fasteignabólunnar og gandreið íslensku krónunnar um gjaldeyrismarkaði ráðlagði Vilhjálmur fólki að taka lán í erlendri mynt til að kaupa sér lóð og reisa hús. Nokkrum misserum síðar hafði húsnæðisverð fallið um allt að 50% og erlend lán hækkað um allt að 100%. Fólk sem byggði hús fyrir 50 milljónir króna og fór að ráðum Vilhjálms flutti inn í hús sem það gat kannski selt á 30 milljónir. Ef það gat þá fundið leið til að losa 100 milljóna króna veðskuldirnar af húsinu. Það var nægt framboð af vondum ráðum frá þessum árum en þessi ráð formanns fjárfesta og háskólakennara í viðskiptafræðum eru alveg sér á parti.
Vefþjóðviljinn rifjar þetta upp vegna þess að á mánudaginn óskaði Vilhjálmur eftir því að Íslendingar bæðu Breta afsökunar á því að íslenskir bankar hefðu farið á hliðina. Vilhjálmur segir að Bretar hafi þurft að bæta innstæður í íslenskum bönkum. Hafi Bretar metið það svo er það vegna þess að þeir óttuðust áhlaup á breska banka. Það var af engri umhyggju fyrir Íslendingum. Jafnframt sagði Vilhjálmur að varnir íslenskra bankamanna minna sig á varnir ákveðinna manna við Nurnberg réttarhöldin.
Vilhjálmur Bjarnason og ýmsir félagar hans úr hagfræðideildum háskólanna eru á kaupi hjá skattgreiðendum árið um kring við stúdera það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Ef þeir eru svo sannfærðir um að íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á mörg hundruð milljarða Icesave-innstæðum hvers vegna bentu þeir aldrei á þessa ábyrgð á meðan hún hrannaðist upp á árunum fyrir bankahrunið? Þetta er ábyrgð sem er meiri en allar tekjur ríkisins á einu ári. Hvers vegna bentu Vilhjálmur, Þorvaldur Gylfason, Þórólfur Matthíasson, Gylfi Zoëga, Gylfi Magnússon og Friðrik Már Baldursson aldrei á þessa hrikalegu skuldbindingu ríkissjóðs? Á þessum árum var sífellt verið að segja frá því að ríkissjóður væri orðinn nær skuldlaus að frátöldum eftirlaunaskuldbindingum. Það voru því næg tilefni fyrir fræðimenn til að benda á að svo væri alls ekki.
E in helsta röksemd Steingríms J. Sigfússonar fyrir því að Íslendingar gangist undir Icesave-ánauðina er að „þannig komumst við fyrr á lapirnar“ því fyrirtækin geti farið að útvega sér erlent fjármagn. Hins vegar hefur komið á daginn að íslensk fyrirtæki geta vel fengið lán erlendis, jafnvel í Hollandi. Það eina sem stendur eftir af þessum málflutningi er að hugsanlega verða byggðastofnanir Evrópusambandsins og Norðurlandanna tregari til að lána til Íslands en undanfarna áratugi. Og í hvað hafa þessir furðulegu sjóðir helst verið að lána hér á landi? Jú, virkjanaframkvæmdir. Varla vill Steingrímur að við drífum okkur að greiða Icesave til þess að lánveitingar til virkjana komist á fullt?