Með neyðarlögunum færði Alþingi breska og hollenska Icesave-innstæðueigendur fram fyrir aðra kröfuhafa Landsbankans. Það var sennilega gjöf til þeirra upp á nokkur hundruð milljarða króna. Bretar og Hollendingar vilja meira. |
M eð neyðarlögum um fjármálastofnanir í október 2008 voru innstæðueigendur færðir fram fyrir aðra kröfuhafa fjármálastofnana. Þetta stórbætti stöðu innstæðueigenda í öllum íslensku bönkunum, þar á meðal stöðu breskra og hollenskra sem áttu innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans. Bresk og hollensk stjórnvöld vildu hins vegar ekki láta þegna sína bíða eftir uppgjöri á þrotabúi Landsbankans og greiðslum þaðan í gegnum Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) heldur bættu þeim innstæðurnar strax haustið 2008. Það gerðu þau af ótta við að dráttur á útborgun innstæðna gæti leitt til áhlaups á aðra banka. TIF var svo gott sem tómur á þessum tíma enda starfaði hann fullkomlega eftir fínum tilskipunum frá sjálfu Evrópusambandinu.
Eins og frægt er orðið gera bresk og hollensk stjórnvöld þá kröfu að TIF bæti þeim það sem þau bættu þegnum sínum. Gott og vel, þau mega auðvitað gera þá kröfu á sjálfseignarstofnunina. Samkvæmt nýlegu mati á þrotabúi Landsbankans gætu þau fengið um 85% af útlátum sínum vegna málsins bætt í gegnum TIF. Ef Alþingi hefði hins vegar ekki sett neyðarlögin og fært innstæður framar í röðina gætu bresk og hollensk stjórnvöld kannski vænst þess að fá 15% bætt. Alþingi er því þegar búið að færa breskum og hollenskum stjórnvöldum nokkur hundruð milljarða króna. Með því settu íslensk stjórnvöld ríkissjóð í mikla hættu því ef neyðarlögunum verður hnekkt af öðrum kröfuhöfum bankans verður ríkissjóður Íslands endanlega gjaldþrota.
Það er því fullkomin glæpamennska af breskum og hollenskum stjórnvöldum að heimta ofaní kaupið að ríkissjóður Íslands gangist í ábyrgð fyrir því að TIF bæti þeim öll útgjöld vegna þeirra eigin ákvörðunar að bæta sparifjáreigendum innstæður sínar tafarlaust.
Íslenska ríkið hefur sett sig í stórhættu til að bæta stöðu íslenskra, breskra og hollenskra innstæðueigenda og þar með ríkissjóðs Bretlands og Hollands. Þetta hættuspil færði Bretum og Hollendingum nokkur hundruð milljarða króna. Bretar svöruðu þessu strax í byrjun október 2008 með því að fella stærsta banka Íslands um koll, settu Íslendinga á bás með Al Kaída og breski forsætisráðherrann lýsti því yfir að eigur íslenskra fyrirtækja yrðu „frystar hvar sem til þeirra næðist“. Síðan hafa bæði Bretar og Hollendingar reynt að troða Íslendingum um tær þar sem þeir hafa fengið tækifæri til.