H rina kærumála vegna furðuverksins sem kallað var kjör til stjórnlagaþings er nú komin upp í hæstarétt. Meðal þessara kærumála eru væntanlega þau ólíkindi að frambjóðendur gátu ekki haft fulltrúa sína viðstadda talningu atkvæða. Talningin fór fram í breskum vélum þar sem í fyrsta sinn í lýðveldissögunni reyndist ekki nægt hugvit í landinu til að telja atkvæði í kosningum.
Það sem er þó ef til vill skýrasta dæmið um hve takmörkuð virðing er borin fyrir þessari stjórnlagasamkomu er að Andrés Magnússon læknir var kjörin á hana þótt hann væri á þeim tíma og sé enn varaþingmaður VG í Suðvesturkjördæmi. Ef Guðfríður Lilja Grétarsdóttir verður ekki komin aftur inn á þing þegar stjórnlagasirkusinn kemur saman í næsta mánuði gæti Andrés lent í því að hlaupa af honum í skarðið fyrir þingmenn VG í Suðvesturkjördæmi. Í 6. gr. laga um stjórnlagaþing segir hins vegar: „Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd eru þó ekki kjörgengir.“
Nú geta án efa einhverjir maldað í móinn varðandi það hvort Andrés hafi verið varaþingmaður að undanförnu, hann sé í raun bara varavaraþingmaður. En Andrési og félögum hans í VG hefur það væntanlega verið ljóst þegar hann gaf kost á sér til stjórnlagamálþingsins að þetta gæti orkað tvímælis. Þegar haft er í huga hve Andrés hefur vinsæll vandlætari í fjölmiðlum undanfarin ár verður þessi bíræfni enn athyglisverðari.
Ý msir virðast telja að Alþingi hafi „mistekist að setja saman nýja stjórnarskrá“ þar sem skránni frá 1944 hefur ekki enn verið hent út í hafsauga. En þrátt fyrir allt er hún enn í gildi og verður það þar til Alþingi hefur samþykkt annað í tvígang með almennum kosningum á milli. Einu gildir hvað kemur út úr snakkinu á stjórnlagasamkomunni.
Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir menn skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis meðal annarra atriða. Í 2. mgr. sömu stjórnarskrárgreinar segir svo að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.
Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþingið, þar sem fjallað er um úthlutun þingsæta, segir að hafi „frambjóðendur af öðru kyninu fengið úthlutað færri en tíu sætum eða sem nemur tveimur fimmtu allra þingsæta [skuli] úthluta sætum til þeirra frambjóðenda sem næstir eru í röðinni af því kyni, sé þá að finna, þangað til hlutfall þeirra [nemi] að minnsta kosti tveimur fimmtu allra fulltrúa. Heildartala þingfulltrúa [skuli] þó aldrei vera hærri en 31.“ Hér var hugsunin með öðrum orðum að mismuna frambjóðendum eftir kynferði ef kjósendur höguðu sér ekki í samræmi við kreddur kynjafræðinnar. Frambjóðandi sem naut lítils stuðnings hefði verið tekinn fram fyrir frambjóðanda sem hlut mikinn stuðning. Á þetta reyndi þó ekki því kjósendur hittu á kynjafræðilega rétt úrslit.
Svo mikill er spenningurinn að skrifa nýja stjórnarskrá að menn hika ekki við að ganga gegn skýrum ákvæðum þeirrar skrá sem fyrir er.