Mánudagur 20. desember 2010

354. tbl. 14. árg.

H in ágæta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands leggur ekki blátt bann við mörgu. Þó er í 20. grein kveðið á um að engan megi skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Það var eitt fyrsta verk norrænu velferðarstjórnarinnar að gera Norðmann seðlabankastjóra. Í 2. og 79. greinum stjórnarskrárinnar kemur skýrt fram að það er Alþingi ásamt forsetanum sem fari með löggjafarvaldið og geti eitt gert breytingar á stjórnarskránni. Alþingi er ekki heimilt að framselja þetta vald sitt. Nú gerir norræna velferðarstjórnin engu að síður tilraun til þess með því að efna til svonefnds „stjórnlagaþings“. Þegar reynt er að telja þingmönnum og öðrum trú um að að Alþingi hafi nokkra minnstu skyldu, lagalega eða siðferðislega, til taka undir tillögur þessarar nýju álitsgjafasamkomu er í raun reynt að ræna stjórnskipunarvaldinu frá Alþingi.

Samkvæmt áætlun stjórnvalda mun þessi tilraun til að sniðganga stjórnarskrána kosta skattgreiðendur 564 til 704 milljónir króna.

Andríki fékk því Miðlun ehf. til að kanna viðhorf manna til þess að eyða slíkum fjármunum í „stjórnlagaþingið“. Könnunin fór fram dagana 10. – 17. desember.

Spurt var: Stjórnvöld telja að kostnaður við stjórnlagaþing verði á bilinu 564 til 704 milljónir króna miðað við núverandi áætlanir. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?

Niðurstöðurnar eru afgerandi. Aðeins 28,3% aðspurðra telja þessum fjármunum mjög eða frekar vel varið í stjórnlagaþing. Ríflega tvöfalt fleiri eða 60,2% telja að þessum fjármunum sé frekar eða mjög illa varið. Kostnaðurinn leggst hvorki vel né illa í 11,6%.

Nánari grein er gerð fyrir þessum niðurstöðum í skýrslu (.pdf) Miðlunar ehf.