Helgarsprokið 19. desember 2010

353. tbl. 14. árg.

E in veglegasta bókin sem gefin er út á íslensku fyrir þessi jól er án efa Kjarni málsins – fleyg orð á íslensku sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók saman en Gunnar Karlsson myndskeytti. Á forsíðu er að auki mynd Þrándar Þórarinssonar, Útifundur á Austurvelli, þar sem næstum of glæsileg bygging hefur verið sett á milli Hótels Borgar og Natan & Olsen hússins í Pósthússtræti. Eru til fáar betri áminningar um að síðan sérmenntaðir arkitektar fóru að teikna nær öll hús hefur eitthvað undarlegt gerst. Ein afleiðing þess er að fá dæmi eru um að hús hafi verið rifin og fallegri byggð í staðinn. Í bókinni er mikið safn tilvitnana um fegurðina en fáir gera þó betur en Kormákur Ögmundsson um Steingerði.

Heitast hellur fljóta
hvatt sem korn á vatni,
enn em eg auðspöng ungri
óþekkr, en bjöð sökkva.
Færast fjöll hin stóru
fræg í djúpan ægi
auðs áðr jafnfögr tróða
alin verði Steingerði.

Bók þessi er tæpar þúsund síður og ef hún verður endurútgefin eftir nokkur ár munu ef fram heldur sem horfir fleyg orð um kynlíf eins og þessi af barmmerki

„Íhaldsmenn fæðast á hverjum degi. Notið smokkinn.“

verða strikuð út úr bókinni á jafnréttisstofu áður en hún fer í prentun. En sú aðgerð jafnréttisstofu verður væntanlega studd af lýðheilsustöð sem þá mun setja viðvaranir utan á svo veigamiklar bækur um að menn fari ekki með þær í háttinn af hættu við að verða undir þeim. Um þessa forsjárhyggju gæti gamanleikjaskáldið Aristófanes hafa sagt í þýðingu Gríms Thomsen

Virðist tíðum
vald þitt lýður
vera harðstjórn skylt.
Af þér ærinn hafa
allir beyg og skrafa
það, sem heyra,
það, sem heyra,
þann í svipinn vilt.

Önnur helstu átakamál samtímans en fegurð og forsjárhyggja fá sinn skammt. Þannig koma útrásin og bankahrunið við sögu í ýmsum tilvitnunum svo sem orðum Þórarins Eldjárns sem sótti sér innblástur í orðin „Ég á, ég má.“

Eitt menn sjá
ef þeir gá
og grufla í.

Maður má
og maður á.
Munur er á því.

Og nú þegar skatthækkanir hafa dunið á landsmönnum árum saman er sjálfsagt að leita í lausavísur Íslendinga.

Einu sinni átti ég hest
sem var svartur eins og skrattinn.
Það var sem mér þótti verst,
þegar þeir tóku hann upp í skattinn.