M eð það að markmiði að gera íslenska skattgreiðendur sakbitna yfir örlögum Landsbankans hefur talvert verið gert úr því að sparifjáreigendum á Icesave reikningum hafi verið mismunað með neyðarlögunum svonefndu. Fjórir félagar úr Indefence-hópnum víkja að þessu í grein í Fréttablaðinu í dag.
Því má hins vegar ekki gleyma að íslensk stjórnvöld gripu líka til ráðstafana sem vörðu hagsmuni erlendra sparifjáreigenda. Með neyðarlögunum var sparifjáreigendum í Bretlandi og Hollandi tryggður forgangur að erlendu eignasafni Landsbankans.
Með þeirri aðgerð virðast breskum og hollenskum sparifjáreigendum hafa verið tryggðar endurheimtur upp á allt að 90% af þeirri upphæð sem þeir höfðu lagt inn á Icesave, án nokkurrar íhlutunar þarlendra stjórnvalda (miðað við áætlun skilanefndar Landsbankans um endurheimtur). Í þessu sambandi verður að benda á að innistæður á Íslandi voru hins vegar aðeins tryggðar í íslenskum krónum og sú trygging var veitt eftir hrun þegar gengisfall hafði orðið á verðmætum þeirra innistæðna. |
Eins og menn vita þá gripu bresk og hollensk stjórnvöld til þess ráðs að greiða Icesave-innistæðueigendum strax það sem þeir áttu inn á reikningunum úr vösum skattgreiðenda þar í landi í stað þess að láta þá bíða eftir uppgjöri á þrotabúi Landsbankans. Þetta gerðu þau af eigin hvötum til að friða þarlenda sparifjáreigendur og koma í veg fyrir áhlaup á aðra banka.
Það verður vart með góðu móti skýrt fyrir mönnum síðar meir að Bretar og Hollendingar hafi svo ætlað að rukka íslenska skattgreiðendur um bætur fyrir þetta inngrip þeirra sjálfra sem hafði þann tilgang að annars vegar bæta breskum og hollenskum þegnum innistæður tafarlaust og hins vegar að verja breska og hollenska banka áhlaupi.
Því síður verður það skýrt að ríkisstjórn Íslands hafi allan tímann staðið með Bretum og Hollendingum í málinu.
Og fyrst menn eru að ræða meinta mismunum. Hvernig komu Bretar fram við Kaupthing Singer & Friedlander bankann í samanburði við aðrar fjármálastofnanir þar í landi haustið 2008? Ýttu bresk yfirvöld ekki þessum breska banka fram af bjargbrúninni á meðan öðrum bönkum þar í landi var bjargað með peningum skattborgaranna?
En Íslendingar geta hins vegar ekki klagað til furðuverksins ESA yfir því að hafa verið mismunað í samanburði við Alkaída.